144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:27]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er af mörgu að taka í ræðu hv. þingmanns, en ég vildi gjarnan inna hana eftir nokkrum þáttum er lúta sérstaklega að atvinnuleysi og þjónustu við atvinnuleitendur. Ég get borið vitni um að það er rétt sem hv. þingmaður segir að forsenda þess að atvinnutryggingagjald var hækkað á versta samdráttartímanum var sú að það mundi lækka samfara minnkandi atvinnuleysi. Í því felst ákveðin brigð ef það gerist ekki beint.

Það er líka ljóst og allar rannsóknir bera vitni um að mjög mikilvægt er fyrir ríki sem eru á sama stað í efnahagsþróun og við núna, að koma út úr mjög erfiðri niðursveiflu, að missa ekki móðinn og hætta ekki þjónustu og stuðningi við atvinnuleitendur. Það eru einmitt mistökin sem Finnar gerðu. Þeir hættu of snemma að styðja fólk til sjálfsbjargar. Það er þessi ríkisstjórn að gera núna. Hún er að slökkva á öllum verkefnunum til að koma ungu, atvinnulausu fólki til mennta. Hún er að þrengja inntöku í framhaldsskólum núna fyrir fólk sem er kannski tvítugt eða 22 ára og langar að bæta við sig framhaldsmenntun og þar með torveldar hún fólki sem enn er á atvinnuleysisskrá að losna þaðan. Það er auðvitað varhugavert að klappa okkur of mikið á bakið fyrir minnkandi atvinnuleysi því að það er enn þá verulegt vandamál.

Þá komum við sérstaklega að efni spurningar minnar til hv. þingmanns. Hver telur hún að staðbundin áhrif geti verið? Maður sér að atvinnuleysi hefur minnkað mest hjá ófaglærðu fólki á höfuðborgarsvæðinu. Úti um land er víða áfram erfitt staðbundið atvinnuleysi og víða er það að versna. Á sama tíma og Vinnumálastofnun er að leggja niður starf á Húsavík fjölgar þar á atvinnuleysisskrá vegna tilflutnings á störfum Vísis burt úr byggðarlaginu, sem kom eins og reiðarslag yfir það byggðarlag og setur það aftur á bak í atvinnuþróuninni. Fyrsti áfangi nýrrar uppbyggingar á Bakka mun þannig bara gera Húsavík jafn stæða eins og ef engin uppbygging hefði orðið.

Ég vil spyrja hv. þingmann vegna reynslu hennar af landsbyggðinni: (Forseti hringir.) Hvað telur hún að skortur á þjónustu við atvinnuleitendur muni þýða úti um land?