144. löggjafarþing — 7. fundur,  17. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[19:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fer ekki hjá því að manni detti jólasveinninn Pottaskefill í hug þegar horft er til aðfara hæstv. fjármálaráðherra. Hér er verið með innansleikjum að viðhalda stöðugt niðurskurðarástandi í þessum viðkvæmu greinum, jafnt þjónustu við atvinnuleitendur sem og heilbrigðisþjónustunni. Það fer verst með fólk í hinum dreifðu byggðum því það leiðir menn í ógöngur eins og þær sem ég tók dæmi af í ræðu minni um stefnuræðu forsætisráðherra, dæmi frá Vopnafirði og Borgarfirði eystri þar sem búið er að skera hjúkrunarfræðingsstöðuna á Borgarfirði eystri niður í 40% og stöðuna á Vopnafirði niður í 60%. Þá veltir maður fyrir sér hvaða fólk á að finnast til að gegna svona störfum. Auðvitað leiðir þetta á endanum til þess að þjónustan í heild verður skorin niður.

Ég held, og vildi kannski fá viðhorf hv. þingmanns til þess, að sú aðferðafræði ríkisstjórnarinnar að halda öllu velferðarkerfinu í járngreipum og viðhalda stöðugu styrjaldarástandi þar þannig að fólk þurfi stöðugt að vera í niðurskurðarham og gefa mönnum aldrei tilfinningu fyrir því að hægt sé að byggja upp þjónustu eða skapa traustari grunn undir henni, grafi hægt og rólega undan þjónustunni og allra mest í hinum dreifðu byggðum. Það er að minnsta kosti mín kenning. Svona stöðugt niðurskurðarástand þýðir að menn fara alltaf að kroppa smávegis hér og þar, og hvað gerist þegar menn eru byrjaðir að kroppa og halda áfram að kroppa? Hér á höfuðborgarsvæðinu eru mörg störf og það er hægt að taka eitt af þeim mörgu störfum, en á Borgarfirði eystri er bara einn hjúkrunarfræðingur og á Vopnafirði bara einn hjúkrunarfræðingur og þegar hann er farinn þá er enginn hjúkrunarfræðingur. Þess vegna er þessi stefna svo varhugaverð gagnvart velferðarþjónustunni í heild því að í sjálfu sér er verið að senda þau skilaboð að stöðugt verði sótt að velferðarþjónustu í hinum dreifðu byggðum.