144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

gagnrýni forustu ASÍ á fjárlagafrumvarpið.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Síðdegis í gær urðu þau miklu tíðindi að miðstjórn Alþýðusambands Íslands samþykkti ályktun og deildi harkalega á fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hún tekur þar undir gagnrýni okkar í stjórnarandstöðunni á veikleikann í þessu fjárlagafrumvarpi, hvernig skorið hafi verið á undanförnum missirum niður í heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi sem hafi leitt til meiri greiðsluþátttöku, minni þjónustu og meira óöryggis, hvernig lagt sé upp með að halda áfram á þessari vegferð, leggja auknar byrðar á sjúklinga og auka við greiðsluþátttöku þeirra sem ærin er fyrir. Hún gagnrýnir einnig að skera eigi niður í þjónustu við atvinnulausa og stytta atvinnuleysisbótatímabil þegar mestu skiptir að halda áfram uppbyggingarstarfinu til að tryggja að atvinnuleysið haldi áfram að dragast saman. Hún gagnrýnir að hvergi sé í fjárlagafrumvarpinu að finna aukin framlög til húsnæðismála þegar nærri 2 þús. manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði og úrlausn þar skiptir höfuðmáli. — Meira að segja oddviti Sjálfstæðisflokksins hér í Reykjavík segir að höfuðvandamálið, höfuðhindrunin í vegi úrlausnar í húsnæðismálum, sé stefnuleysi ríkisstjórnarinnar og skortur á stefnumörkun um nýjar húsnæðisbætur.

Virðulegi forseti. Miðstjórnin lætur ekki þar við sitja heldur segir hún líka að hún telji engan grundvöll fyrir frekara samstarfi eða samráði við ríkisstjórnina, verði þetta að veruleika. Forseti Alþýðusambandsins sagði í viðtölum í gær að ekkert samráð hefði verið haft af hálfu ríkisstjórnarinnar um þessa þætti fjárlagafrumvarpsins og það væri sérstaklega ámælisvert að skera ætti atvinnuleysisbótakerfið niður, það kerfi sem verkalýðshreyfingin samdi um árið 1955. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni síðan þá að ríkisstjórn (Forseti hringir.) með einhliða hætti grípur inn í atvinnuleysisréttinn. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvernig hyggst hann bregðast við?