144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

gagnrýni forustu ASÍ á fjárlagafrumvarpið.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það kemur óneitanlega á óvart og skýtur svolítið skökku við að forseti Alþýðusambandsins skuli kjósa að bregðast við fjárlagafrumvarpinu með þeim hætti sem hann gerir í ljósi þess að með þessu fjárlagafrumvarpi er verið að bæta stöðu íslenskra heimila verulega. Það er verið að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og lækka verðlag og þar með skuldir heimilanna. Bara með skattkerfisbreytingum er verið að skila 4 milljörðum kr. og með fjárlagafrumvarpinu öllu 40 milljörðum aftur til fólksins í landinu frá því sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Þrátt fyrir að forseti Alþýðusambandsins hafi sýnt mikið langlundargeð allt síðasta kjörtímabil, að langmestu leyti, virðist það þrjóta nú þegar hlutirnir eru að færast allir til betri vegar og hefur orðið alger viðsnúningur frá stefnu síðustu ríkisstjórnar.

Af því að hv. þingmaður nefnir sérstaklega framlög til heilbrigðismála eru þau einmitt aukin núna eins og var í fyrstu fjárlögum ríkisstjórnarinnar eftir viðvarandi langan niðurskurð síðustu ríkisstjórnar þar sem heilbrigðiskerfið var í raun komið að hættuástandi. Það er ekki búið að leysa úr öllum vanda heilbrigðiskerfisins en viðsnúningurinn er vissulega hafinn. Það er bætt verulega í framlög til heilbrigðismála.

Fyrst hv. þingmaður rifjar upp söguna má rifja það upp að fyrrnefndur forseti Alþýðusambandsins birti einmitt á heimasíðu sinni eða bloggsíðu fyrir einum tveimur árum síðan línurit sem sýndi þróun kaupmáttar verkamanna í Dagsbrún og í Eflingu. Á því línuriti mátti sjá að kaupmáttur verkamanna jókst iðulega langmest þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru í ríkisstjórn og sú virðist ætla að verða raunin áfram.