144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

fyrirvari stjórnarliða við fjárlagafrumvarpið.

[10:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins um þá stöðu sem upp er komin að annar stjórnarflokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfinu setur svokallaðan almennan fyrirvara við framkomið fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra, ekki síst vegna hækkunar á matarskatti sem margir hv. þingmenn úr Framsóknarflokknum hafa lýst verulegum efasemdum yfir. Þegar frumvarpið kom fram sagði hv. þingflokksformaður Sigrún Magnúsdóttir að náðst hefði samkomulag um að hleypa þessu svona áfram og framsóknarmenn ætluðu að fylgjast með því hvernig þessu yrði tekið og hvernig umræðan þróaðist.

Nú er umræðan svo sannarlega að þróast. Við fáum hér yfirlýsingu frá Alþýðusambandi Íslands sem lýsir þessu frumvarpi sem aðför að launafólki, tekur að einhverju leyti undir áhyggjur hæstv. forsætisráðherra frá því fyrir nokkrum árum. En við sjáum líka margar ályktanir frá félögum Framsóknarflokksins um land allt þar sem félagsmenn í þessum flokki lýsa yfir áhyggjum af þeim fyrirætlunum að hækka eigi matarskattinn.

Mig langar því að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því, í ljósi þess að umræðan er tvímælalaust að þróast með ákveðnum hætti, hún gæti þróast eitthvað enn, hvort það sé réttur skilningur hjá mér, svo að við áttum okkur á því í umræðunni hér á þingi að hinn almenni fyrirvari Framsóknarflokksins lúti þá fyrst og fremst að matarskattinum, sem er það sem flestir hv. þingmenn flokksins hafa lýst andstöðu sinni við, og hvort við megum þá eiga von á því, í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast, að hv. þingmenn Framsóknarflokksins muni beinlínis beita sér fyrir breytingum á því eða hvort þessi almenni fyrirvari lúti að einhverjum öðrum þáttum fjárlagafrumvarpsins.