144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

fyrirvari stjórnarliða við fjárlagafrumvarpið.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Þessi almenni fyrirvari sem hv. þingmaður vísar til lýtur að því, eins og hefur raunar komið fram nokkrum sinnum, að menn vilja sjá og fá það staðfest að markmið fjárlagafrumvarpsins náist með þeim hætti sem gert er ráð fyrir. Þessi megingrundvallarmarkmið sem ég nefndi hér áðan, í fyrra andsvari um að fjárlagafrumvarpið eigi að auka ráðstöfunartekjur fólks, allra hópa í samfélaginu, ekki hvað síst fólks með milli- og lægri tekjur og lækka verðlag í landinu og með því lækki lán heimilanna frekar en að hækka.

Í þessu felst grundvallarmunur frá skattkerfisbreytingum síðustu ríkisstjórnar og þess vegna verða menn alltaf að líta á þessa hluti í samhengi. Það er allt annað að ráðast í skattkerfisbreytingar sem auka ráðstöfunartekjur fólks en að hækka alla skatta og gjöld samtímis. Ég nefni sem dæmi fjárlagafrumvarp ársins 2010 þar sem gert var ráð fyrir að auka álögur á einstaklinga með hækkun tekjuskatts um 11 milljarða, tryggingagjald um 15 milljarða, skatta á vörur og þjónustu, virðisaukaskatt um 10 milljarða og almenn vörugjöld um 7 milljarða. Þegar menn eru að hækka allt í einu bitnar það á öllum hópum samfélagsins og rýrir kjör allra. (SII: Af hverju …?) Með nýju fjárlagafrumvarpi er verið að leitast við að bæta kjör allra, auka ráðstöfunartekjur allra hópa en huga sérstaklega að þeim sem eru með millitekjur og lægri tekjur. Það er gert fyrst og fremst með því að skila til almennings þeim auknu álögum sem menn þurftu að búa við hér á síðasta kjörtímabili en gæta þess um leið að það dreifist á þann hátt að það skili sér sérstaklega til fólks sem er með millitekjur og lægri tekjur.