144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

svör við atvinnuumsóknum.

[10:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég er með eiginlega furðulega fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Það er spurning undir hvaða ráðherra mannasiðir og kurteisi heyra. Þannig er að fyrirtæki auglýsa gjarnan störf laus til umsóknar. Fólk sækir um, ýmiss konar fólk, þeir sem eru í starfi nú þegar og vilja skipta, atvinnuleitendur sem hafa misst vinnuna, öryrkjar sem hafa misst starfsgetuna — og svo gerist ekki neitt. Það kemur ekkert svar. Menn bíða og bíða, fyrst fullir væntinga um að þeir fái kannski starfið og rætist úr öllum þeirra vandræðum, en það gerist ekki neitt. Þeir fá ekki einu sinni neitun.

Þetta er afskaplega bagalegt. Margir öryrkjar hafa sagt við mig að þetta brjóti menn niður, þeir eru búnir að sækja um kannski 20–30 störf og fá aldrei neitt svar, eða mjög sjaldan.

Nú vil ég spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um þetta. Mannasiðir heyra kannski ekki undir ráðherrann, en þetta er félagslegt atriði því að öryrkjar og atvinnuleitendur eru brotnir niður með þessum hætti sem er algjör óþarfi því að það er afskaplega lítið mál að svara og segja: Við erum búin að ráða í starfið, eða eitthvað slíkt, t.d. með tölvupósti. Nei, það gerist ekki neitt. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Sér hann einhverja lausn á þessum vanda?