144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

svör við atvinnuumsóknum.

[10:54]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa fyrirspurn. Mér skilst að samkvæmt forsetaúrskurði heyri mannasiðir og kurteisi ekki undir félags- og húsnæðismálaráðherra frekar en aðra ráðherra, en ég held hins vegar að við eigum öll að reyna að sinna þessum málum sem best.

Það hvílir ekki lagaskylda á atvinnurekendum um að svara atvinnuumsóknum. Í Stjórnarráðinu hefur það hins vegar verið þannig að við höfum svarað þegar fólk sækir um störf hjá okkur.

Þegar ég sjálf var atvinnulaus á tímabili man ég eftir því hvers konar tilfinning það var að bíða einmitt eftir því að fá svar. Jafnvel þótt maður reyndi að hringja fékk maður seint og síðar meir að vita hvort maður hafði fengið starf eða ekki og jafnvel oftast bara með því að sjá tilkynningu um að búið væri að ráða í starfið. Þessi biðtími var mjög erfiður.

Ég vil líka benda á að það hefur oft verið gagnrýnt að við þingmenn og ráðherrar séum ekki nógu dugleg að svara ýmsum erindum sem til okkar berast. Ég held að hið sama hljóti að gilda um það, að fólk getur komið athugasemdum sínum á framfæri mjög víða í nútímasamfélagi þegar það telur að atvinnurekendur sinni þessum málum ekki rétt. Ég held að það geti líka hjálpað atvinnurekendum að upplýsa um það í upphafi hvort þeir muni svara umsóknum eða ekki. Þá veit fólk að minnsta kosti að hverju það gengur þegar það sækir um.