144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

svör við atvinnuumsóknum.

[10:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég er að tala um störf sem eru auglýst opinberlega laus til umsóknar. Ég tel að í því felist ákveðin siðferðileg skylda þess sem birtir slíka auglýsingu að svara þeim umsóknum sem berast. Svarið þarf ekki að vera merkilegt. Þökkum fyrir umsóknina, áhuga á starfinu og tilkynnum að við erum búin að ráða í starfið. Ekkert meir.

Það sem ég er að tala um er hvernig þetta virkar á þá sem eru að sækja um, atvinnuleitendur, öryrkja, þá sem hafa skerta starfsgetu. Þeir bíða í ofvæni. Ég skora bara á atvinnurekendur hér með að taka á honum stóra sínum og breyta þessari hegðun og fara að svara þannig að þeir sem sækja um fái að vita þegar búið er að ráða í starfið og hvernig sú ráðning fór fram, þannig að menn séu ekki að bíða í óvissu í marga mánuði með kannski 20, 30, 40 eða 50 umsóknir í gangi.