144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

refsiaðgerðir gagnvart Ísrael.

[10:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra heldur senn á fund allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þar sem hann mun taka þátt í umræðum um margvísleg pólitísk álitaefni sem eru uppi í heiminum. Eitt af þeim er hin erfiða deila fyrir botni Miðjarðarhafsins. Sem betur fer höfum við Íslendingar og Alþingi borið gæfu til þess að vera meira og minna sameinuð í afstöðu okkar til þess. Við vitum hins vegar að frá 2006 hefur deilan verið í fullkomnum hnút. Ísraelsmenn hafa orðið mjög herskáir. Þeir hafa hert hernámið. Þeir hafa hert landránið og þeir hafa farið í hræðilega herleiðangra á hendur Palestínumönnum, nú síðast með styrjöld sinni við Gaza sem skildi eftir 2.000 manns í valnum, þar af 500 börn. Tíu þúsund heimili sprengd í loft upp og allir innviðir í tætlum.

Við vitum líka að hæstv. utanríkisráðherra veður ekki í villu og svíma um það hver er orsök þessarar deilu. 22. júlí sagði fastafulltrúa Íslands á opnum fundi öryggisráðsins, fyrir hönd hans, að meginkjarni og rót deilunnar væri hernámið sem Ísraelsmenn standa fyrir á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem. Í hvert einasta skipti sem Ísraelsmenn og Palestínumenn hafa verið knúnir til að setjast við samningaborðið hafa alla vega frá 2006 Ísraelsmenn sprengt það í loft upp með því að hefja nýtt landrán. Nú síðast í lok deilnanna í sumar með því að ræna þúsund ekrum til viðbótar.

Ég hef ekki verið talsmaður þess að það eigi að slíta stjórnmálasambandi. Ég hef hins vegar sagt að það kunni að koma sú stund að menn eigi að grípa til viðskiptaþvingana.

Mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann telji koma til greina að grípa til efnahagslegra þvingana gagnvart Ísraelsmönnum til þess að pína þá til að láta af hernámi sínu og landráni.