144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

refsiaðgerðir gagnvart Ísrael.

[11:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa tekið rösklega til máls um afstöðu sína til Ísraels. Ég er sömuleiðis þakklátur fyrir það að hæstv. ráðherra útilokar ekki að gripið verði til efnahagslegra þvingana gagnvart Ísrael. Hann hefur sjálfur greint kjarna vandans og ég er honum sammála um það.

Það er hins vegar þannig að stundum er sú staða uppi að það eru engin önnur úrræði. Við sáum það varðandi Suður-Afríku. Það var viðskiptabann sem braut á bak aftur apartheid og það sem er að gerast í Palestínu er um það bil það sama og gerðist þar; það er aðskilnaðarstefna og ekkert annað.

Hæstv. utanríkisráðherra hefur gengið fram fyrir skjöldu og ég held að fáir hafi verið jafn harðir og hann í því að beita efnahagslegum þvingunum að því er varðar deiluna í Úkraínu. Ef það er rétt af Íslendingum að styðja efnahagslegar þvinganir vegna þeirrar deilu langar mig að heyra rök hans hvers vegna það er ekki rétt gagnvart ofríki Ísraels.