144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:20]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég játa að það sem fram kom í ræðu málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, kom mér töluvert á óvart. Eftir að hafa kynnt mér þessi mál virðist mér, eins og hæstv. utanríkisráðherra segir, að hér sé um hefðbundið samningsferli að ræða. Ég fæ ekki séð að það sé hægt að íslenskum rétti að framselja vald til einhvers ofurdómstóls, yfirþjóðlegs dómstóls með þeim hætti sem þarna er um að ræða. Ég ætla því ekki að reyna að svara þeim spurningum sem fram voru bornar eða velta þeim upp, hæstv. ráðherra gerði það eins og hægt er, held ég.

Ég ætla bara að minna á að þjónustuviðskipti skipta verulegu máli hér á landi eins og fram kom í tölum sem hæstv. ráðherra fór með. Þannig er að hér í borg hafa orðið veruleg umskipti á vinnumarkaði. Þegar ég kom fyrst á vinnumarkað voru hér 25 togarar og sex stór frystihús. Nú eru þau horfin og á sumum þessara staða þar sem frystihúsin voru eru stunduð þjónustuviðskipti og sömuleiðis hafa íslensk verkfræðifyrirtæki selt sína þjónustu yfir landamæri. Það skiptir sem sagt verulegu máli fyrir íslenskt atvinnulíf að hafa aðgang að erlendum mörkuðum fyrir þá þekkingu sem er til hér á landi í verkfræði og jarðhita og á fleiri sviðum. Það er m.a. talað um sjóflutninga. Við erum að vísu orðin dálítið döpur í sjóflutningum en eigum þó fyrirtæki sem starfa í þeim efnum.

Ég verð að láta staðar numið hér, virðulegi forseti, tími minn er liðinn.