144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

TiSA-samningurinn.

[11:32]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og kalla eftir þessari umræðu. Fréttir af þessum viðræðum hafa verið mjög óljósar og eiginlega fyrst og fremst á þann veg að fjalla um leynd og leyndarviðræður. Það getur ekki verið gott veganesti fyrir nokkrar viðræður. Tími leyndarhyggjunnar er í raun og veru liðinn.

Ég get samt tekið undir með öðrum þingmönnum sem hafa talað hérna á undan að mikilvægt sé að Ísland taki þátt í viðræðum um þjónustuviðskipti. Utanríkisviðskipti og þar með talin þjónustuviðskipti skipta Íslendinga mjög miklu máli. Það skiptir miklu máli að Ísland sé gerandi í því hvernig viðskiptamál og milliríkjaviðskipti þróast, ekki einungis þiggjandi. Það þykir mér skipta miklu máli.

Ég vil líka taka undir þau orð að eftir það sem við á Íslandi höfum gengið í gegnum síðustu ár þá höfum við lært það eitt að leyndarhyggja er slæm, hún eyðileggur móral ef svo skal segja. Gagnsæi verður að vera leiðarljós. Þjóðfélag nútímans fer í raun og veru fram á það. Þannig að ég vil leggja hart að hæstv. utanríkisráðherra og þeim sem standa í þessum viðræðum að halda merki gagnsæis á lofti, bæði gagnvart þinginu hér heima og eins að Ísland fari fram með því fordæmi og reki á eftir að leynd, sé hún einhver yfir þessum viðræðum, verði létt af.