144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:38]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja hér sérstaka umræðu um stefnumótun hæstv. heilbrigðisráðherra í heilsugæslu. Við horfum upp á miklar breytingar í henni og ég vil freista þess að biðja ráðherra að skýra þær breytingar og á hverju þær byggja.

Pólitíkin getur auðvitað haft mismunandi hugmyndafræði um hvernig fari best á því að reka hitt og þetta. Það er allt gott og blessað en það er auðvitað lágmark að maður viti að hverju maður gengur hjá hverjum og einum og að þeir sem kjósi til dæmis Sjálfstæðisflokkinn viti hvernig sá flokkur sér fyrir sér að best sé að reka heilsugæslu.

Í viðtali við Læknablaðið í október síðastliðnum skýrði ráðherra sína afstöðu til heilsugæslunnar með eftirfarandi orðum, með leyfi herra forseta:

„Ég hef mikinn áhuga á því að sjá aukinn einkarekstur í heilsugæslunni og einnig að útvista henni til sveitarfélaganna til að eiga möguleika á að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaga við þá þjónustu sem heilsugæslan veitir. Það fyrirkomulag hefur gefið góða raun bæði á Akureyri og á Höfn í Hornafirði.“

Mikið er ég sammála hæstv. ráðherra hér, sérstaklega þar sem hann ræðir um að samþætta félagsþjónustu sveitarfélaga við þá þjónustu sem heilsugæslan veitir. Það er mjög gott mál. Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta.

En ég ætla aðeins að halda áfram að vitna í ráðherrann, með leyfi forseta, þar sem hann segir í sama viðtali:

„Sömuleiðis er reynsla okkar af einkarekstri í heilsugæslunni hér á höfuðborgarsvæðinu mjög góð ef borið er saman við rekstur annarrar heilsugæslu.“

Þann 21. ágúst síðastliðinn, tíu mánuðum eftir að viðtalið í Læknablaðinu kom út, birtist annað viðtal við hæstv. heilbrigðisráðherra í Vikudegi. Þar var allt annað upp á teningnum. Ráðherra var allt í einu kominn á algjörlega öndverða skoðun og niðurstaða hans þar var að heilsugæslunni væri best borgið hjá ríkinu.

Í þessu viðtali var verið að ræða þá stöðu að hæstv. heilbrigðisráðherra ákvað í sumar að taka heilsugæsluna úr höndum Akureyrarbæjar en sveitarfélagið vildi reka heilsugæsluna áfram en hafði jafnframt verið í þeirri stöðu að borga með henni um 160 milljónir á síðustu sex árum og vildi eðlilega hætta þeirri meðgjöf og fá rétt framlög frá ríkinu.

En þarna kom sem sagt í ljós algjör stefnubreyting hjá hæstv. ráðherra og ég spyr mig hvað hafi breyst og vil spyrja ráðherra: Hvað breyttist á þessu tíu mánaða tímabili?

Á hvaða forsendum var ákveðið að heilsugæslunni á Akureyri sé best borgið hjá ríkinu? Var heilsugæslan illa rekin af Akureyrarbæ? Voru reikningarnir sem Akureyrarbær lagði fram, og sýndu fram á að þeim væri ójafnt gefið í þessum efnum, á einhvern hátt ósanngjarnir eða rangir?

Þá verð ég líka að biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir mér hvernig hann telji ríkið geta staðið sig betur. Getur ríkið náð fram einhverju hagræði sem Akureyrarbær náði ekki? Á hvaða hátt þá? Það væri gaman að vita það.

Á hvaða reikningsgrunni er sú niðurstaða fengin? Er ráðherra með reiknilíkan fyrir þjónustuna á Heilsugæslustöðinni á Akureyri sem hann getur kannski deilt með okkur?

Svo er annað atriði í þessu. Ef það er niðurstaðan að þjónustusamningar við sveitarfélögin séu bara ekki heppilegt form, hvernig er þessu þá háttað hjá öðrum sem fá álíka þjónustusamning til einkareksturs?

Í viðtalinu í Læknablaðinu sem ég vitnaði hér fyrst til kom einnig fram að hæstv. ráðherra var ánægður með einkareksturinn í heilsugæslu hér á höfuðborgarsvæðinu. Hefur sú afstaða líka breyst?

Ég segi fyrir mig að ég fagna fjölbreyttu rekstrarformi ef þjónustan er góð og örugg og það er hagkvæmt fyrir ríkið að útvista henni. Við höfum til dæmis heilsugæsluna í Salahverfi sem hefur fengið mikið lof frá embætti landlæknis um þjónustu og gæði. Það er gott mál. En ég velti fyrir mér hvort álíka úttekt á heilsugæslunni á Akureyri hafi verið lögð fram af embættinu. Ég hef ekki fundið þá úttekt en það hlýtur að vera eitthvað sem liggur fyrir sem ráðherra byggir ákvörðun sína á. Ég finn það ekki en bið ráðherra um að tiltaka það hér.

Þegar allt kemur til alls: Hvernig ætlar ríkið að veita betri þjónustu fyrir jafn mikið fé? Það hlýtur að vera hugmyndin, er það ekki? Varla er það svo að ríkið ætli að gefa sjálfu sér meiri slaka til rekstursins en það gaf sveitarfélaginu áður.