144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[11:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu. Það virðist sem flestir flokkar, og flestir landsmenn þar fyrir utan, séu sammála um að heilsugæslan eigi að vera grunneiningin í heilbrigðiskerfinu. Svo kannski komumst við ekki öllu lengra í umræðunni um hvernig við viljum að hún leiki það hlutverk.

Núna hafa verið efst á baugi umræður um heilsugæsluna á Akureyri í ljósi þess að mjög farsælt starf heilsugæslunnar og sveitarfélagsins er nú að breytast vegna þess að ekki hafa náðst samningar á milli aðila. Við í velferðarnefnd ætlum að funda með bæði sveitarstjórn og fulltrúum heilsugæslunnar í næstu viku, bara til þess að fá betri upplýsingar um þetta mál, en það er sorglegt þegar samstarf hefur gengið vel að því sé ekki leyft að þróast áfram.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, þegar við ræðum um heilsugæsluna, að rekstrarformið sé ekki í forgrunni heldur byrjum við á því að koma okkur saman um hvers konar þjónustu og hvers konar stofnanir við viljum að heilsugæslan sé. Rekstrarformið hlýtur síðan að eiga að laga að eðli starfseminnar. Nú dreg ég enga dul á það að ég tel að opinberir aðilar eigi að vera ráðandi í heilbrigðisþjónustu og tel óþarft að fara í miklar breytingar á því fyrirkomulagi varðandi heilsugæsluna. En við eigum að einblína á þá þjónustu sem þar er veitt og (Forseti hringir.) hvernig við eflum hana til að hún verði fyrsta einingin og grunneiningin í heilbrigðiskerfinu.