144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:00]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þá umræðu sem er hér í dag. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur að ræða nærþjónustuna og þar fer heilsugæslan fremst í flokki eins og heimahjúkrunin gerir líka.

Það hefur vakið athygli mína eftir að hafa kynnt mér það á landsbyggðinni að þar er almennt læknaskortur og starfsmannaskortur í heilsugæslunni, það er mikið vandamál. Þar er líka hærri launakostnaður en hér á höfuðborgarsvæðinu vegna staðaruppbóta og aukinna fría sem starfsmenn vinna sér inn með vinnu úti á landsbyggðinni sem enn hefur þau áhrif að þegar læknarnir eru fáir eru það fríin sem telja og þá er þjónustan lakari en efni standa til. Í tilfellum sem ég veit um er það þannig að hjúkrunarstofnanir hafa gert ráð fyrir ákveðnum upphæðum í heilsugæsluna sem þær hafa jafnvel á tímabilum ekki getað nýtt vegna þess að það vantar starfsfólk. Það er nú stóra málið og eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra er nú verið að hleypa um það bil 600 milljónum í sérnám lækna og að fjölga þeim sem fara í heimilislækningar.

Ég bind einnig vonir við það að sameining stofnana skapi grundvöll og svigrúm til faglegrar hagræðingar og sparnaðar, fjölbreyttari þjónustu sem skortir mjög mikið á landsbyggðinni. Fjölbreytt rekstrarform heilsugæslunnar er grundvöllur að því að skapa góða þjónustu í dreifðum byggðum landsins þar sem langt er til þeirrar sérfræðiþjónustu sem er í boði hér á höfuðborgarsvæðinu og ég tel að við séum á réttri leið. Það hafa verið erfiðir tímar, þeir eru að lagast og við munum gefa í í heilbrigðisþjónustunni og heilsugæslunni á næstu árum. Það vona ég alla vega.