144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

stefnumótun í heilsugæslu.

[12:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Víða hefur verið komið við í þessari umræðu. Ég hef tvær mínútur til að bregðast við.

Ég þakka fólki og þátttakendum í umræðunni gagnlega umræðu og margar góðar innkomur.

Heilt yfir vil ég segja, því það hefur borið mikið á samningum við sveitarfélög, þá verðum við að hafa það í huga að þjónustusamningur við sveitarfélög, Höfn og Akureyri, var gerður þegar lögin um reynslusveitarfélögin rann út 2003. Fram að þeim tíma byggði verkefnið og umsýsla sveitarfélaganna á lögum. Eftir að þetta rann út var gerður þjónustusamningur sem er eins og hver annar verktakasamningur. Það gengur ekki og er ekki heimilt að færa fjármuni af fjárlagalið sem búið er að ákvarða með lögum á þingi yfir í þjónustusamning, sama hvort um er að ræða sveitarfélög eða einhvern annan. Það er grundvallarmunur á þessu.

Meðal annars af þessum ástæðum var erindi frá mér neitað af fjármálaráðuneytinu, vegna jafnlaunaátaksins, vegna þess að þetta fellur ekki undir regluverk ríkisins við umsýslu fjármuna. Þar af leiðandi hef ég þá afstöðu að glórulaust sé, ef við erum sammála um það meginmarkmið að heilbrigðisþjónustan eigi að vera með sem jöfnustu aðgengi, að fara að gera verktaka- eða þjónustusamning við 74 sveitarfélög þegar okkar æðsta eftirlitsstofnun með þessum málaflokki mælir gegn því vegna þess að veikburða sveitarfélög muni ekki ráða við það. Það sem kallað er afstöðubreyting mín er m.a. af þeim sökum, þ.e. reynslan af þessum slætti núna.

Meginverkefni heilbrigðiskerfisins, meginmarkmiðið, er númer eitt að lækna þá sem til þess leita eða veita þeim úrlausn. Ég tek hins vegar alveg heils hugar undir það sjónarmið að meginefnið í því hvernig það er gert sé að sem greiðastur aðgangur sé að þjónustunni óháð efnahag, búsetu og öllu því um líku. Meðal annars, af því að ég nefni búsetuna, þá er líka (Forseti hringir.) höfuðnauðsyn að styrkja okkur sem búum úti um land í þeirri stöðu til að geta veitt fólkinu í dreifbýlinu þá þjónustu sem því ber að lögum. Að því er ég að vinna.