144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[12:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum svokallaðan bandorm, ráðstafanir í ríkisfjármálum sem tengjast fjárlagafrumvarpinu sem hefur verið til umræðu síðustu vikuna í þinginu. Eftir því sem umræðunni vindur fram verður maður meira og meira undrandi á þeim fjölmörgu annmörkum sem eru á fjárlagafrumvarpinu og fylgifrumvörpum þess, tekjuöflunarfrumvörpunum og ráðstöfunum í ríkisfjármálum, formlega þar sem fjárlagafrumvarpið er einfaldlega beinlínis vitlaust því að það er ekki í samræmi við tekjuöflunarfrumvörpin, í öðru lagi fyrir þær villur sem eru í textum frumvarpanna og sýna ekki góðan undirbúning málanna að því leytinu til og í þriðja og síðasta lagi eru efnisatriði sem maður hlýtur að undrast mjög og aðferð við að taka ákvarðanir um þau sem meðal annars endurspeglast síðan í þeim hörðu viðbrögðum sem komið hafa hjá meðal annars verkalýðshreyfingunni, ekki bara Alþýðusambandinu heldur líka fjölmörgum stéttarfélögum, bæði innan Alþýðusambandsins og samtaka opinberra starfsmanna og háskólamanna, og enn fremur Bændasamtökunum, samtökum eldri borgara, Öryrkjabandalaginu og fjölmörgum öðrum samtökum.

Við umræðu um þessar ráðstafanir eru nokkur atriði sem ég vildi fyrst og fremst beina athyglinni að. Það gefst ekki tími til þess í stuttum ræðum við 1. umr. að fara yfir þá fjölmörgu hluti sem þarfnast lagfæringar við, leiðréttingar eða afturköllunar í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar eftir atvikum.

Hér er fyrst ástæða til að staldra við vaxtabæturnar, hvernig með þær er farið og hefur verið farið. Þær voru orðnar býsna myndarlegar, getum við sagt, árið 2011, hygg ég að það hafi verið, í tíð síðustu ríkisstjórnar, þegar þær náðu hámarki og voru 22 milljarðar á einu ári. Samkvæmt frumvarpinu eru þær á næsta ári 7,7 milljarðar. Það þýðir að á aðeins þremur árum höfum við dregið úr stuðningi við skuldsett heimili í landinu um rúmlega 14 milljarða kr., í raun 2/3 í tekjutengdum vaxtabótum. Tekjutengdar vaxtabætur eru þess eðlis að þá bæta menn mest og best þeim sem hafa meðaltekjur og lægri tekjur, en þeir sem hafa yfir meðaltekjum, miklar tekjur og hreinar eignir fá ekki greiddar vaxtabætur. Hins vegar bregður svo við að menn ráðstafa þessari fjárhæð, þessum liðlega 14 milljörðum sem búið er að draga vaxtabætur saman á þessum síðustu fáu árum, og rétt rúmlega það, 18 milljörðum kr. alls, í það sem er kallað leiðréttingin og eru þær lækkanir á höfuðstól skulda sem boðað er að ráðist verði í í október og nóvember. Þær aðgerðir eru á ársgrundvelli 18 milljarðar kr., þ.e. rétt liðlega það sem búið er að draga vaxtabæturnar saman um á síðustu þremur árum. Þessar greiðslur, ágætu þingmenn, leiðréttingin svokallaða, eru ótekjutengdar og taka ekkert tillit til eigna manna.

Þetta þýðir að í meginatriðum verður breytingin frá því sem var árið 2011 og til þess sem verður á komandi ári sú að það er svipuð heildarfjárhæð sem verið er að styðja skuldsett heimili um vegna íbúðakaupa, en nú ber svo við að 2/3 fjárhæðarinnar verða greiddir út ótekjutengt og koma þess vegna að verulegu leyti til fólks með háar tekjur og miklar eignir og dregur þá að sama skapi úr þeim fjármunum sem eru til ráðstöfunar til að styðja meðaltekjuheimili, lágtekjuheimili og fólk sem lítið á í eignum sínum og hefur jafnvel neikvæða eiginfjárstöðu. Þetta er sannarlega samfélagslegt réttlæti á hvolfi og gengur eiginlega þvert gegn því sem maður skildi af kosningabaráttu Framsóknarflokksins þar sem lögð var áhersla á að hjálpa heimilum í erfiðleikum vegna húsnæðiskaupa. Hér er dregið mjög verulega úr hinum tekjutengda stuðningi en farið í mjög mikinn ótekjutengdan stuðning með sömu fjármunum. Það er ekki til þess fallið að hjálpa þeim sem eru í erfiðleikum heldur þvert á móti bara verið að verja hluta af þeim takmörkuðu fjármunum sem til ráðstöfunar eru til þess að hjálpa fólki sem þarf ekkert að hjálpa og minnka stuðninginn við hina á móti.

Þetta er atriði sem ég held að sé algerlega nauðsynlegt fyrir hv. nefnd að fara mjög vandlega yfir, með hvaða hætti hinar ótekjutengdu vaxtabætur, því að það er ekki hægt að kalla leiðréttinguna neitt annað, dreifast á tekjuhópana, hvernig hinar tekjutengdu vaxtabætur dreifast á tekjuhópana og hversu miklu betur væri hægt að styðja það fólk sem er með umtalsverðar skuldir, er með meðaltekjur eða lægri tekjur eða stórar fjölskyldur og á erfitt með að ná endum saman, hvernig væri hægt að nýta þessa fjármuni betur og með beinskeyttari hætti til að hjálpa þeim sem þurfa aðstoðar við til að ráða við sín húsnæðislán en ekki bara ausa peningum til fjölda fólks sem ekkert þarf á þeim að halda. Það er einfaldlega illa farið með fé.

Í öðru lagi, virðulegur forseti, vildi ég vekja máls á því sem snýr hér að starfsendurhæfingarsjóði. Nú um langt árabil, ég hygg að það sé komið langt á annan áratug, hafa menn rætt í samfélaginu, á vettvangi aðila vinnumarkaðarins, hér í þinginu, úti í sveitarstjórnunum og víðs vegar, um mikilvægi þess að gera breytingar á örorkumatskerfinu í landinu, gera breytingar sem lúta að Tryggingastofnun sem væru til þess fallnar að hvetja fólk til þess að starfa — og ekki bara hvetja fólk til þess að starfa heldur leggja áherslu á það að verja fjármunum til þess að gera fólki kleift að halda áfram að vinna þó að það verði fyrir áföllum, missi sjón eða heyrn eða hreyfigetu, eigi við geðræna örðugleika að stríða eða annað það sem getur leitt fólk til örorku. Í þessari orðræðu núna í hátt í 20 ár hefur það verið ríkur hluti af henni að kerfið hefur sagt við þá sem búa við örorku: Treystið okkur, þó að við höfum í áratugi lagt miklu minni peninga í endurhæfingu fólks en löndin í kringum okkur viljum við núna breyta því, hafa menn sagt, við viljum breyta því, fara að fjárfesta í fólki og leggja peninga í endurhæfingu, einkanlega starfsendurhæfingu, eins og gert er í löndunum í kringum okkur. Við erum tilbúin að setja fjármuni í það gegn því að gerðar verði breytingar á örorkumatskerfinu og að við horfum meira á starfsgetu en vangetu.

Allt hefur þetta verið ósköp falleg orðræða og væri út af fyrir sig hægt að sjá margvísleg rök sem stæðu til þess að gera breytingar í þessa veru, hlutast til snemma um það að þegar fólk verður fyrir áföllum fái það stuðning og aðstoð, helst áður en það missir þá vinnu sem það hefur verið í þannig að það geti haldið tengslum við atvinnurekanda sinn, kannski minnkað við sig starfshlutfall, fengið inn á vinnustaðinn sérfræðinga til að aðstoða sig við að halda áfram að vinna þrátt fyrir áföllin, kannski í minna starfshlutfalli, kannski í einhverju öðru starfi en það áður gegndi en leitast við að gera sem flestum fært að halda áfram að vinna. Við viljum öll fá að reyna á okkur, fá að nýta dagana okkar til að starfa og iðja. Það sem skortir fyrst og fremst til þess að fleiri geri það er stuðningur við fólk til að gera einmitt það og síðan auðvitað það að leiðrétta þessi vondu kerfi okkar þar sem fólki er beinlínis refsað fyrir að vinna, refsað með alls kyns óheyrilegum tekjutengingum sem jafnvel geta orðið meiri en launin sem fólk fær fyrir starfið.

Hvað gerist þá núna? Jú, í fjárlögunum er ekki gert ráð fyrir neinu framlagi úr ríkissjóði í starfsendurhæfingarsjóð. Það hefur gerst áður, en þá var þannig ástatt að í starfsendurhæfingarsjóði voru til verulegir fjármunir og mundi fyrirsjáanlega ekki bitna á þjónustunni á komandi ári að ríkið legði ekki til í sjóðinn og því var því frestað fyrstu árin. Nú hafa hins vegar forsvarsmenn sjóðsins VIRK upplýst að komi ekki fjármunir úr ríkissjóði á næsta ári þurfi að draga úr þeirri starfsendurhæfingu sem þar er fyrir hendi á sama tíma og ríkisstjórnin reynir í orði kveðnu að ná sátt og samstöðu um það að breyta örorkumatskerfinu yfir í starfsgetumat. Þá kippir hún að sér hendinni með fjármununum og hlýtur að vekja djúpstæðar efasemdir um að menn meini nokkuð með öllum fagurgalanum um að þeir vilji auka og efla starfsendurhæfingu og einbeita sér að starfsgetu öryrkja fremur en vangetu og að tilgangurinn með því að breyta örorkumatskerfinu sé sá sami og með þeirri tillögu að verja engu til starfsendurhæfingar á næsta ári, þ.e. að spara á þeim sem efnaminnstir eru. Í því virðist ríkisstjórnin vera hvað flinkust í fjárlagagerð sinni.

Þetta er kannski þeim mun verra vegna þess að hér varð nokkur umræða þegar VIRK-sjóðurinn hóf störf. Hann er í raun og veru stórkostlegt og gott framtak, bæði hjá verkalýðshreyfingunni og vinnuveitendum, til að efla starfsendurhæfingu í landinu. Þá ræddu menn um hvort sú starfsemi ætti að vera á vegum ríkisins eða hvort það væri forsvaranlegt að hún væri á vegum félagasamtaka úti í bæ eins og verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda. Það eru ákaflega verðug félagasamtök, verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur, og hafa axlað margs konar félagslegar skyldur í samfélaginu um áratugaskeið og niðurstaðan varð sú að þeim aðilum væri fullkomlega treystandi fyrir verkefninu og jafnvel betur en hinu opinbera vegna þess að þeir hafa náin tengsl við vinnustaðina og margvísleg tækifæri til að hjálpa til við starfsendurhæfinguna sem hið opinbera hefur ekki. Þá var samt eftir vandinn: Hvað um þá sem eru ekki félagar í verkalýðshreyfingunni, þ.e. eru ekki á vinnumarkaði og eru samt öryrkjar? Hvernig á að fara með þá? Eiga þeir bara að standa utan kerfis? Á að búa til velferðarkerfi á vegum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda sem ekki nær til þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði þar sem bara sumir Íslendingar eru hluti af velferðarkerfi starfsendurhæfingar og aðrir ekki?

Niðurstaðan varð sú að það mætti ekki verða, það mættu ekki vera tvær þjóðir í landinu að þessu leyti, heldur yrðum við að halda í þá grunnreglu íslensks velferðarsamfélags að allir eigi jafnan aðgang að velferðarþjónustunni, starfsendurhæfingunni sem öðru. Þess vegna varð niðurstaðan sú að ríkissjóður legði til þessarar starfsemi fyrir hönd þeirra sem ekki ættu aðild að kerfinu og þar með mundi VIRK þjónusta alla. Nú er það orðið þannig eftir að framlögunum var frestað um nokkurra ára skeið að af framlögum fyrirtækjanna og launafólksins er núna uppsafnað búið að greiða 840 millj. kr. í starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga sem eiga ekki aðild að þeim félögum og þeim vinnumarkaði sem greiða inn í þennan sjóð. Ríkissjóður er farinn að skulda sjóðnum verulegar fjárhæðir fyrir endurhæfingu fólks sem ríkið sannarlega á að borga fyrir. Það gerir þessa ákvörðun enn illskiljanlegri og þó ekki síst fyrir það að ekkert samráð var haft um hana við verkalýðshreyfinguna eða Samtök atvinnulífsins og það hefur nú kallað á mjög eindregnar yfirlýsingar af hálfu verkalýðshreyfingarinnar og spillt fyrir mikilvægum kjarasamningum (Forseti hringir.) sem fram undan eru í vetur.