144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í umræðunni undanfarna daga hafa mikið heyrst áhyggjur verkalýðshreyfingarinnar af þeim mikla niðurskurði sem er í velferðarkerfinu, í raun og veru aðför að launafólki. Kjör launafólks eru ekki eingöngu laun hverju sinni heldur það hvernig búið er um ýmsa þætti í velferðarkerfinu eins og atvinnuleysisbætur þegar fólk stendur frammi fyrir því, sem gerist auðvitað of oft hjá fólki á lífsleiðinni. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður telji launþega og verkalýðshreyfinguna geta sætt sig við þetta nema eitthvað annað komi á móti sem vegi upp þær skerðingar á kjörum sem þá er verið að gera með að skera atvinnuleysisbótatímabilið úr þrem árum niður í tvö og hálft.

Það var samið um atvinnuleysisbótakerfið 1956 og þetta er í fyrsta skipti sem það er skorið svo gróflega niður án nokkurs samráðs við hlutaðeigandi aðila. Það var ekki haft samráð við atvinnurekendur og verkalýðshreyfinguna og ekki sveitarfélög sem eru þá sá aðili sem þarf að taka við því fólki sem dettur út af atvinnuleysisbótum eftir tvö og hálft ár. Það á að gerast strax um áramótin.

Hvað telur hv. þingmaður hægt að gera til að bæta upp þessa gífurlegu skerðingu í heildarmyndinni í kjörum launafólks? Telur hann að (Forseti hringir.) það megi sjá í fjárlagafrumvarpinu?