144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Nei, ég sé það ekki í fjárlagafrumvarpinu. Það er svo sem ekki alltaf allt hárrétt sem ASÍ segir. Ég held hins vegar að það sé alveg hárrétt sem miðstjórn ASÍ ályktaði um — var það ekki í gær eða fyrir helgina? — að kalla megi þetta frumvarp og fylgifrumvörpin með því aðför að launafólki.

Hvað varðar styttingu á atvinnuleysistímabilinu væri ein aðferð náttúrlega að falla frá henni, það sýnist mér vera fyrsta leiðin. Þar fyrir utan er alveg dæmalaust að gera þetta án þess að hafa haft nokkurt samráð við verkalýðshreyfinguna eða sveitarfélögin vegna þess að auðvitað á fólk rétt á framfærslu. Hún verður miklu lægri en atvinnuleysisbæturnar gera ráð fyrir.

„Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“ er mikið tískuhugtak þessa dagana og hefur verið undanfarið en ég held að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja eigi að liggja fyrst og fremst í því að borga fólki mannsæmandi laun.