144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Vissulega er rétt að laun í landinu hjá stórum hópum eru allt of lág. Það breytir þó ekki því að þegar fólk stendur frammi fyrir atvinnuleysi eru atvinnuleysisbætur ekki mjög háar til að þurfa að framfleyta sér á þeim til lengri tíma. Þess vegna er svo mikilvægt að við höfum öflugar vinnumarkaðsaðgerðir.

Ofan í þessar ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um að stytta bótatímabilið er Vinnumálastofnun gert að hagræða um 100 milljónir sem bitnar eðlilega á því að hægt sé að halda úti ráðgjöf og öflugum vinnumarkaðsaðgerðum til að hjálpa fólki aftur að komast í vinnu, hvort sem það er til þess að mennta sig, eins og var gert á síðasta kjörtímabili, Nám er vinnandi vegur, eða með ýmsum aðgerðum í samvinnu við sveitarfélög. Óttast hv. þingmaður það ekki þegar þetta tvennt helst í hendur, niðurskurður líka hjá því tæki ríkisins sem á að vinna gegn atvinnuleysi, Vinnumálastofnun? Þar er verið að skera niður og loka nokkrum útstöðvum Vinnumálastofnunar úti um land. Óttast ekki þingmaðurinn að þetta hafi þau áhrif að það verði hætta á að við förum aftur að snúast ofan í viðvarandi atvinnuleysi hjá ákveðnum hópum í þjóðfélaginu sem hefur verið unnið að hörðum höndum að brjótast út úr?

Hæstv. félagsmálaráðherra talaði um að það þyrfti að spara þarna vegna þess að það þyrfti að nýta þessa fjármuni í bætur fyrir aldraða og öryrkja, (Forseti hringir.) en eins og ég þekki þetta hefur aldrei komið króna úr ríkissjóði í Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann hefur verið fjármagnaður með tryggingagjaldi í (Forseti hringir.) gegnum kjarasamninga og af atvinnurekendum.