144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því miður er þetta eiginlega allt á sömu bókina lært. Ég þori varla að segja það en ég held að ég hafi heyrt það einhvers staðar að það gæti fylgt því að fyrst atvinnuleysisbótatímabilið væri stytt væri líka hægt að skera niður hjá Vinnumálastofnun. Ég held svei mér þá að þetta hafi verið orðað svona. Það er náttúrlega svo mikil vitleysa að það tekur ekki tali.

Við höfum verið svo heppin hér á landi að þekkja ekki atvinnuleysi fyrr en síðustu árin. Þegar síldin hvarf og allt það var reyndar atvinnuleysi og síðan var aftur erfiðleikatímabil einhvern tíma í kringum 2000, minnir mig, og atvinnuleysið fór upp. Annars er atvinnuleysi nokkuð sem við þekkjum ekki sem daglegan gest sem betur fer. Vissulega hefur það þó verið undanfarin ár og ég held að við megum þakka okkar sæla hvað við höfum þó náð því niður. Sumir segja að það sé mikið til út af því að fólk hafi flust úr landi og svona. En það hefur minnkað og við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að halda atvinnuleysi sem lægstu og kosta peningum til þess að virkja fólk og koma því áfram til vinnu. (Forseti hringir.) Ég held að það sé ömurlegt hlutskipti að vera atvinnulaus.