144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[14:27]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér fannst hann samt sem áður ekki svara mér nákvæmlega því sem ég var að spyrja um: Hvað er það sem þarf að breytast í frumvarpinu til þess að fyrirvari Framsóknarflokksins detti út? Það hefur aldrei komið fram í umræðunni, þetta er bara almennur fyrirvari. Sumir hafa aðeins talað um matarskattinn. Aðrir hafa ekki gefið neitt út á hvort það sé eitthvað fleira. Má hann hækka eitthvað eða má hann alls ekki hækka? Mér finnst það skipta miklu máli. Við vitum alveg að ríkisstjórnarflokkar þurfa að ná saman um þetta, en það er mjög sérstakt samt sem áður, og ég veit ekki hvort það hefur gerst áður, að ríkisstjórnarflokkur hafi lagt fram slíkan fyrirvara, það held ég ekki. Það er því ekkert óeðlilegt að við veltum okkur svolítið upp úr því í minni hlutanum. Þetta eru miklir peningar og þetta eru miklar breytingar eða litlar breytingar. Hver eru viðmiðin?

Það er alltaf göfugt markmið að reyna að ná hallalausum fjárlögum og við höfum sem betur fer undanfarin ár stefnt hægt og sígandi í rétta átt og ég hef trú á því að okkur takist það.

Okkur greinir á um hvernig við viljum gera það. Um það snýst einmitt stefna ríkisstjórnarinnar, eins og hv. þingmaður sagði, sem birtist m.a. í fjárlagafrumvarpinu. Það er það sem við gagnrýnum. Við viljum sjá þetta gert á annan hátt og það er ekkert óeðlilegt við það, við stöndum kannski fyrir ólíkri nálgun í pólitík. En mér finnst ekki hafa komið fram hvað nákvæmlega þarf til þess að Framsóknarflokkurinn verði sáttur, hvort það má hækka eða lækka eitthvað. Ég hafði því miður ekki tækifæri til að hlusta á ræðu hv. þingmanns í fjárlagaumræðunni.

Ég svara svo hinu með Vinnumálastofnun á eftir.