144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það frumvarp sem við ræðum er á þskj. 3, 3. mál að venju, frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Þar birtir ríkisstjórnin ýmis atriði. Þetta hefur stundum verið kallað bandormur sem er settur hér inn og er um þá liði sem taka oftar til sín mikið fjármagn og það sem sett er fram sem forsendur fjárlaga. Ég verð að segja alveg eins og er að í þessu frumvarpi eru oft laumufarþegar sem menn gera sér ekki almennilega grein fyrir strax við 1. umr. Það eru nokkur atriði sem ég vil gera að umtalsefni, það eru vaxtabætur, greiðsluþátttaka lyfja og úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki.

Ef ég byrja fremst af þeim þremur atriðum sem ég nefndi, um vaxtabætur, er fjallað um það í frumvarpinu að ríkisstjórnin er að breyta því kerfi sem er núna og færa það til fyrra horfs.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttum lögum munu því vaxtabótareglurnar færast í sitt fyrra horf um næstu áramót og við það mun stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifast á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur).“

Þarna er þetta sagt alveg klárt. Nú ætla ég ekki að fara að úttala mig um vaxtabótakerfið sem slíkt og hvaða fjölskyldur koma þar inn. Það kemur væntanlega betur fram þegar gögn verða lögð fyrir nefndina til að fara í gegnum. Vafalaust má breyta þessu og það er alveg rétt sem hefur verið sagt að tekjur eða vaxtabætur fara að skerðast mjög snemma í tekjubilinu, en þarna er beinlínis sagt, vegna þess að ekki er aukið við, að verið sé að færa frá tekjulágum og eignalitlum fjölskyldum.

Því vaknaði spurning hjá mér við umræðuna sem við áttum um það frumvarp sem var 2. mál á 2. þskj., þ.e. breytingar á virðisaukaskattskerfinu, niðurfelling á vörugjöldum o.s.frv., sem ég tók líka þátt í. Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er: Hefur verið tekið tillit til þeirra breyttu reglna sem hér eru boðaðar um vaxtabætur og stefnu á tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur þegar menn sýna okkur fram á það í virðisaukaskattsfrumvarpinu að allir eigi að koma betur út úr þessu en menn halda og hefur verið tilefni til mikillar umræðu á Alþingi, sérstaklega hvað varðar tekjulægsta hópinn? Ég sakna þess að umræðan hafi ekki líka verið um millitekjufólkið. Við getum sagt, eins og kom fram í gær, t.d. kennarahjón með 700–800 þús. kr. í tekjur. Ég veit ekki hvort við fellum það undir millitekjur, hugsanlega gerum við það, en hvaða áhrif hefur þessi breyting á vaxtabótakerfinu á þau?

Hitt atriðið sem ég ætla að nefna, sem er laumufarþegi nr. tvö, eru breytingar á greiðsluþátttöku lyfja. Hér er sú breyting gerð á svokölluðum S-merktum og leyfisskyldum lyfjum að þau falla undir almenna greiðsluþátttökukerfið og gerist það um leið og sjúklingar eru útskrifaðir. Við vitum að lögð er áhersla á að útskrifa sjúklinga sem allra fyrst af sjúkrahúsum til að losa pláss fyrir næstu sem þurfa að komast að og eru að bíða eða þá að menn treysta viðkomandi sjúklingi til að fara. En það er ekki þar með sagt að hann sé laus allra mála. Hann getur þurft að koma í heimsóknir á sjúkrahúsið til skoðunar o.fl. í langan tíma á eftir. Þarna er verið að gera þá breytingu, ef ég skil þetta rétt, að S-merktu lyfin falla þá á sjúklinginn sjálfan og fara undir greiðsluþátttökukerfið.

Virðulegi forseti. Í gærkvöldi fór ég á styrktartónleika sem Kraftur, stuðningsfélag ungra krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra, stóð fyrir. Það var ánægjulegt fyrir unga fólkið sem stóð fyrir tónleikunum að Norðurljósasalurinn var fullur. Hver var aðaltilgangur tónleikanna? Jú, að stofna neyðarsjóð fyrir ungt fólk sem greinist með þennan illvíga sjúkdóm. Sýnt var á glærum sem birtar voru á tjaldi áður en tónleikarnir hófust hver kostnaður fólksins er sem fær sjúkdóminn. Tekið var dæmi af ungum manni, Íslendingi sem bjó í Frakklandi, sem greindist með krabbamein og fór í krabbameinsaðgerð þar. Kostnaður hans var enginn. Dæmi var tekið um einstæða móður með þrjú börn sem greindist með brjóstakrabbamein fyrir þremur árum og kostnaður hennar var orðinn ríflega 1,5 millj. kr.

Ég mundi halda fljótt á litið að viðkomandi einstaklingur þyrfti að hafa upp undir 8 milljónir í tekjur til að geta rekið heimili sitt, húsnæði og allt sem þarf og eiga 1,5 milljónir eftir til að borga þessar aðgerðir. Mér sýnist enn einu sinni, og það er alvarlegi laumufarþeginn sem sést úti um allt þetta frumvarp og líka í fjárlagafrumvarpinu þar sem er verið að skera hluti allt of mikið niður, verið að ráðast á þá sem minnst mega sín til þess eins að sýna hallalaus fjárlög.

Þetta hafa allar ríkisstjórnir getað gert. Ég get tekið dæmi af síðustu ríkisstjórn, af því að rætt hefur verið um árið 2010 og hæstv. fjármálaráðherra var að skamma þáverandi stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar fyrir skattahækkanir. Vissulega voru þær miklar, við vitum af hverju þær voru gerðar. En það hefði ekki verið neinn vandi að minnka þær um 10–15 milljarða ef við hefðum gert eins og núverandi ríkisstjórn gerir núna. Svo ég nefni einn málaflokk sem mér var kær þá og er mér kær, framlög til samgöngumála, sem voru þá í Íslandsmeti, einir 15 milljarðar, þá hefði verið hægt að taka þau algjörlega út en þeim var haldið inni vegna þess að talið var að auka þyrfti framkvæmdir og skapa vinnu í landinu.

Aftur að greiðsluþátttöku lyfja sem er enn einn laumufarþeginn sem heilbrigðisráðherra, og ríkisstjórnin, laumar hér inn, nákvæmlega það sama og hækkunin á komugjöldunum í fyrra var sem okkur var ekki sagt frá fyrr en mörgum dögum seinna eftir að þær voru gerðar ljósar.

Ég get tekið annað dæmi sem er mjög nýlegt. Ég kom í framhaldsskóla ekki alls fyrir löngu. Þar var okkur sagt að ríkisstjórnin hefði lofað 400 milljónum til að bæta rekstrarstöðu framhaldsskóla. En hvað var gert áður? Í sumar fengu skólameistarar bréf þar sem nemendaígildi voru skorin niður. Síðan var veitt af þessum 400 milljónum en viðkomandi skóli endaði í nokkurra milljóna mínus í framhaldi af því. Og nú berst mér til eyrna og hef verið beðinn um að ræða við aðila úti á landi sem reka framhaldsskóla þar vegna þess að þeir spyrja hvernig þeir eigi að bregðast við 20% niðurskurði til framhaldsskóla á landsbyggðinni í því fjárlagafrumvarpi sem búið er að leggja fram. Skólameistarar eru ráðþrota.

Aftur að lyfjunum. Þetta dæmi sem ég nefndi um krabbameinssjúkt fólki er hlutur sem er okkur Íslendingum til stórskammar. Ef metnaðurinn er einhver ættum við þingmenn núna að sameinast um að auka fé í þennan málaflokk þannig að við séum ekki sífellt að leggja auknar byrðar á það fólk sem fær þennan illvíga sjúkdóm.

Að lokum ætla ég að tala um úrvinnslugjald á raf- og rafeindatæki. Í þessu frumvarpi er það allt saman rakið frá setningu laga 2003 til breytinga á lögum á síðasta þingi, 2014, að Úrvinnslusjóður eigi að taka til starfa vegna raftækja og rafeindatækja. Ég er með spurningu til hæstv. fjármálaráðherra. Boðað er að á næsta ári muni 117 millj. kr. koma inn í þennan sjóð vegna raftækja og rafeindatækja og er það greitt af neytendum í sjóðinn þegar tæki eru keypt. Af því að þvottavélar, þurrkarar og ísskápar voru veigamikil rök stjórnarsinna fyrir breytingum á virðisaukaskattskerfinu og niðurfellingu vörugjalda spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Er tekið tillit til þessa hjá þeim sem eiga að njóta ávaxtanna og geta keypt sér þessi tæki á næsta ári þegar er búið að fella niður vörugjöldin, hefur þá verið tekið tillit til kannski 15. þús. kr skilagjalds á einni þvottavél? Ég spyr. Hefur það verið tekið inn í eða er einungis, eins og mér finnst svo oft gert í þessum frumvörpum, hið jákvæða tekið með?

Þessi sjóður á sem sagt að starfa þannig að þeir sem selja eða framleiða taka þetta gjald strax í byrjun. Það á að vera eitthvert merkingarkerfi þannig að þegar því er skilað komi peningurinn fyrir þessu. Það kemur ekki til baka til notandans. Er það þess vegna sem það stendur hér í IV. kafla í þessu frumvarpi þar sem talað er um verðlagsáhrif af upptöku úrvinnslugjaldsins og talið að þau séu óveruleg, þar sem verið er að tala um ráðstöfunartekjur heimilanna, og það er líka gegnumgangandi í öllu virðisaukaskattsfrumvarpinu sem við ræddum í gær, og verið að sýna okkur fram á ábatann sem það er? Það er sagt að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist eða fólk hafi meira milli handanna eftir þessar breytingar. En hér segir að bandormurinn, það sem þar er boðað, þó svo að ráðuneytið segi að erfitt sé að meta það — ég skil reyndar ekki hvers vegna — sagt er að þetta verði fremur til lækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna en hitt.

Ég kom upp í þessa umræðu til að nota tækifærið og biðja hæstv. fjármálaráðherra, af því að hann er væntanlega næstur á eftir mér og lokar þessu máli, að ræða þetta aðeins við okkur og segja okkur frá því hvort þeir þættir sem ég hef gert að umtalsefni séu teknir inn í heildarútreikningana í þeim útreikningum og töflum sem okkur voru sýndar í gær, þ.e. með breytingar, með virðisaukaskattskerfið, niðurlagningu vörugjalda o.s.frv. Mér sýnist, því miður, eins og tíndir séu til hinir jákvæðu punktar, allt til að sýna fram á að við munum öll hafa það betra eftir þetta en áður.

Ég sagði það í gær í umræðunni um virðisaukaskattinn að því miður treysti ég ekki þessum útreikningum. Ég treysti ekki þeim mótvægisaðgerðum sem á að fara í og þess vegna er ég fullur efasemda um breytingarnar á virðisaukaskattsfrumvarpinu, sérstaklega hvað varðar hækkun matarskattsins úr 7 í 12% eða að taka þar inn nýjar 11 millj. kr. Ég spurði líka þá, og það sjáum við hvergi í mótvægisaðgerðum: Hvernig á að koma til móts við aldraða sem munu fá á sig hækkun matarverðs, munu ekki njóta ávaxtanna við lækkun á þvottavélum eða ísskápum, t.d. vegna þess að fólkið á tækin eða er komið inn á öldrunarheimili þar sem ekki þarf slík tæki í hverja og eina íbúð.

Virðulegi forseti. Þetta var erindi mitt um þetta frumvarp og ég vænti þess að hæstv. fjármálaráðherra gefi okkur sem erum í þingsal upplýsingar núna um þau álitamál sem ég gerði að umtalsefni.