144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil byrja á að segja að með þeim ráðstöfunum sem kynntar eru í frumvarpinu er sannarlega verið að leita leiða til að draga úr útgjöldum ríkisins og það er eðlilegt að sums staðar sé snert á málaflokkum sem eru viðkvæmir þegar slík mál eru til vinnslu.

Hér hefur verið farið um víðan völl. Ég ætla að reyna að bregðast við helstu athugasemdum sem ég hef tekið eftir í umræðunni. Í fyrsta lagi hefur verið spurt um það hvernig standi til í framtíðinni að fjármagna byggingu hjúkrunarheimila. Því er til að svara að fyrir nokkrum árum var ákveðið af fyrri ríkisstjórn að fara svokallaða leiguleið. Með leiguleiðinni komst ríkissjóður á þeim tíma hjá því að taka á sig útgjöld á fjárlögum vegna byggingar hjúkrunarheimila sem ella hefur verið gert ráð fyrir að sé venjan.

Það má segja að með því að velja leiguleiðina hafi menn komist hjá því tímabundið að gjaldfæra byggingu hjúkrunarheimila á ríkisreikningi og þannig sýnt eitthvað betri afkomu. Á móti sitja menn uppi með leigusamning við sveitarfélögin sem tóku á sig byggingarkostnaðinn og þurfa að greiða leigu sem við skulum gera ráð fyrir að sveitarfélögin ætli sér að nota til að endurheimta allan byggingarkostnað, mögulega vaxtakostnað ef ekki gott betur. Ég ætla þó að ganga út frá í þessu samhengi að það komi út á sléttu fyrir sveitarfélögin, við skulum bara gefa okkur það.

Þá stendur það eftir að allar líkur eru á því að ríkið hafi að jafnaði betri lánskjör en sveitarfélögin og þá er í raun og veru eina spurningin eftir: Er það réttlætanlegt að fara leiguleiðina til að tryggja framgang svona verkefna þrátt fyrir að menn hafi ekki efni á því á viðkomandi fjárlagaári? Ég held að það sé mikið álitamál satt best að segja, það er mikið álitamál.

Þetta er liðin tíð og það má svo sem segja að með þessari leið hafi sá árangur náðst að hjúkrunarheimili risu á síðasta kjörtímabili þar sem þörfin var brýn, það skiptir miklu máli. Og ég ætla ekki að gera lítið úr því að þar var mikilvægri þörf mætt. En til að svara spurningunni sem að mér er beint tel ég að til framtíðar litið eigi menn frekar að horfast í augu við þennan kostnað þegar hann fellur til í stað þess að ýta honum inn í langa framtíð. Og það verkefni er í sjálfu sér óleyst; leiguleiðin leysti í sjálfu sér ekkert, heldur ýtti kannski frekar vandanum hvað kostnaðinn snerti inn í framtíðina. (Gripið fram í.)

Varðandi lyfjakostnaðinn finnst mér talsvert skorta á að menn ræði um S-merktu lyfin, sem afgreidd eru utan sjúkrahúsa, í því samhengi hvort yfir höfuð sé eðlilegt að þau komi inn í greiðsluþátttökukerfið. Það er um það sem það mál snýst. Það snýst um að heilbrigðisráðherra leggur til að við tökum S-merkt lyf, sem afgreidd eru utan spítala, inn í greiðsluþátttökukerfið. Ef menn leggjast gegn því, sem mér heyrist að margir hafi gert hér í umræðunni, finnst mér að eftir eigi að svara þeirri spurningu: Bíddu, hvers vegna ættu S-merkt lyf utan sjúkrahúsa ekki að koma inn í greiðsluþátttökukerfið? Hvers vegna ættu önnur lyf að vera þar inni sem eru í kostnaði og hvað varðar nauðsyn þess fyrir sjúklingana að fá lyfin í öllum aðalatriðum sambærileg? Hvers vegna ætti að gera mun á þessu tvennu?

Heilbrigðisráðherra telur að ekki eigi að gera slíkan mun, það felist í því mismunun. Við lítum þannig á að hér sé verið að klára innleiðingu á greiðsluþátttökukerfinu með þessari breytingu. Vissulega felst í því ákveðið hagræði fyrir ríkið en það er líka ákveðið jafnræðis- og sanngirnismál. Og til að svara þeirri spurningu sem velt var upp hér í umræðunni, hvort til þess muni koma að lyf afgreidd á göngudeild fari inn í greiðsluþátttökukerfið, þá er ekki svo, enda er það lyf afgreitt inni á sjúkrahúsi.

Varðandi vaxtabætur — talsvert hefur verið rætt um vaxtabætur í dag og í gær. Ég ætla aðeins að leyfa mér að vísa í það sem segir í fjárlagafrumvarpinu á bls. 424 og 425 um þær. Þar kemur meðal annars fram að ein skýring þess að vaxtabætur eru að lækka sé sú að skuldir heimilanna hafi undanfarin ár því sem næst staðið í stað; þær hækkuðu einungis um 0,1% á árinu 2014 áætlað en heildarfasteignamatið er hins vegar að hækka mun meira, þ.e. um 4,7%. Þetta veldur því að nettóeign heimilanna er að vaxa. Það leiðir til minni útgjalda með lækkun vaxtabóta. Þegar nettóeign heimilanna vex er minna greitt í vaxtabætur vegna þess að eign heimilanna í fasteigninni er ein breytan sem skiptir máli í þessu. Síðan hafa aðrar forsendur, eins og vaxtastig og meðaltekjur, þróast með hagstæðari hætti á þessu ári en við höfðum reiknað með. Það veldur því að vaxtagjöld á yfirstandandi ári verða að öllum líkindum lægri en við sáum fyrir við fjárlagagerðina og það endurspeglast aftur inn á næsta ár.

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins á næsta ári er gert ráð fyrir því að viðmiðunarfjárhæðir og reiknireglur verði óbreyttar og aðeins til upprifjunar: Tekjuskerðingarhlutfallið var hækkað á árinu 2014 en að öðru leyti hafa bæði viðmiðunarfjárhæðir og reiknireglur haldist óbreyttar í fjögur ár, þ.e. frá því að miklar breytingar voru gerðar í lok árs 2010. Þá var sem sagt veruleg hækkun á hámarksgreiðslum en tekju- og eignatenging vaxtabóta var gerð brattari. Þessar breytingar sem gerðar voru 2010 áttu upphaflega að gilda í tvö ár, 2011 og 2012, svo voru þessar breytingar framlengdar við álagningu 2013 og 2014 og á árinu 2015 erum við enn að framlengja þessa ákvörðun frá 2010. Það er ekki verið að skerða vaxtabætur, það er verið að framlengja ákvörðun sem gilt hefur í mörg undanfarin ár.

Meginástæða þess að vaxtabætur eru að lækka er ekki sú að verið sé að skerða réttindi. Meginástæðan er sú að laun eru að hækka, nettóeign er að hækka og kjör lántakenda eru að skána. Það er meginástæðan. Vilji menn halda óbreyttri vaxtabótafjárhæð þarf að stórauka réttindin í vaxtabótakerfinu. Ef það er orðið sérstakt markmið að greiða tiltekna fjárhæð í vaxtabætur, ef það á að vera einhver fasti hvað greitt er í vaxtabætur, þá þurfum við bara að breyta réttindunum. En ef við viljum tryggja tiltekin réttindi verður fjárhæðin sem rennur í vaxtabætur á hverju ári breytileg. Hún er að lækka vegna þess að staða heimilanna er að batna.

Hér hefur líka verið rætt um jöfnun örorkubyrði lífeyrissjóðanna. Ég geri mér grein fyrir því að þar er um viðkvæmt málefni að ræða. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni er verið að kalla eftir heildarendurskoðun á þessu fyrirkomulagi. Það er ekki sjálfsagt og eðlilegt mál að skatttekjur séu nýttar til þess að jafna örorkubyrði inni í almenna lífeyristryggingakerfinu. Við höfum væntanlega varið rúmlega 20 milljörðum til þessa á undanförnum árum. Við höfum verið að setja 3 milljarða í þennan málaflokk á ári og ég ætla að leyfa mér að vísa til þess að á þeim tíma sem samkomulagið var gert var staða ríkissjóðs gríðarlega sterk. Þá voru vaxtatekjur ríkissjóðs jákvæðar, ríkissjóður hafði á þeim tíma meiri vaxtatekjur en vaxtagjöld. Nú er því þveröfugt farið svo að munar tugum milljarða og staða ríkissjóðs allt, allt önnur. Af þeirri ástæðu staldra menn við þessi háu framlög inn í lífeyristryggingakerfið til jöfnunar örorku og kalla eftir heildarendurskoðun. Þessu er ekki kippt öllu úr sambandi í einu vetfangi en þó er umtalsverð lækkun áætluð á næsta ári. Ég hef ekkert gefið mér varðandi það með hvaða hætti verður leyst úr þessu fyrir fram en það er ljóst að ríkissjóður kallar eftir og við köllum eftir því, sem berum ábyrgð á þessu máli, að kerfið verði tekið til heildarendurskoðunar.

Varðandi styttingu atvinnuleysisbótatíma verð ég í fyrsta lagi að vísa til þess að Vinnumálastofnun býður áfram, eftir sem áður, ýmis úrræði þeim sem eru atvinnulausir og hafa verið í langan tíma. Það skiptir máli og verður áfram gert. Hins vegar hljótum við að geta verið sammála um að ekki er sama brýna þörfin fyrir átaksverkefni og var þegar atvinnuleysi hækkaði á sínum tíma. Fyrri ríkisstjórn lækkaði atvinnuleysisbótatímann um eitt ár og kom með tilteknar mótvægisaðgerðir sem ég tel að hafi á margan hátt virkað ágætlega. (Gripið fram í.) Ég tel að þær hafi virkað ágætlega, mótvægisaðgerðirnar sem þá var gripið til í samstarfi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins. En nú er atvinnuleysi á Íslandi lægra en í öllum Evrópusambandsríkjum og störfum er að fjölga, atvinnuleysi er ekki sama brýna vandamálið og það var þegar ráðist var í þessi átaksverkefni. Ekki er óeðlilegt að við þær aðstæður sé dregið úr atvinnuleysisbótatíma enda sjálfsagt að benda á að of langur atvinnuleysisbótatími getur undir vissum kringumstæðum falið í sér ranga hvata.

Annað sem nefnt hefur verið hér er að framlög eigi ekki að renna inn í loftslagssjóðinn. Ég ætla bara að segja um það að það er ekki skuldbinding hjá okkur Íslendingum að koma á fót slíkum sjóði og að verja allri fjárhæðinni sem kemur vegna viðskipta með losunarheimildir til verkefna sem loftslagssjóði var ætlað að sinna. Það er ekki skuldbinding en að sjálfsögðu munum við að verulegu leyti setja fjármuni sem koma frá þessum tekjustofni í slík verkefni þótt það gerist ekki um loftslagssjóðinn.

Því er haldið fram hér að smásöluverð vegna vörugjalda muni ekki breytast. Ég er ósammála þeirri fullyrðingu. Þeir sem hafa opnað dagblöðin undanfarna daga geta séð að verslunin hefur nú þegar brugðist við löngu áður en vörugjöldin voru lækkuð og sýnir fram á getu sína til að lækka verð og stunda virka og eðlilega samkeppni.

Hér hefur líka verið rætt um framlögin til VIRK. Ég ræddi það talsvert í framsöguræðu minni og vil taka það fram aftur að ég tel að starfsendurhæfingarverkefnin séu gríðarlega mikilvæg, að samstarf við aðila vinnumarkaðarins um þau efni geti skilað miklum árangri, en við vísum til þess hvernig rekstur sjóðsins hefur verið og hversu mikil sjóðsöfnun hefur verið í sjóðnum. Það kallar á endurskoðun á aðkomu ríkisins vegna þessara verkefna. Það er uppleggið í þessu máli og ég vænti þess að meðal annars í samstarfi við félagsmálaráðherra verði farið nánar yfir það hvernig við viljum og getum hagað samstarfinu í framtíðinni um þessi brýnu mál.

Annað sem nefnt hefur verið, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Ríkisstjórnin hefur sýnt það í verki að hún hyggst verja verulegum fjármunum í það og tók sérstaka ákvörðun um það á þessu ári að setja nokkur hundruð milljónir í þær framkvæmdir. Annars er kerfið til framtíðar til heildarendurskoðunar.

Að svo sögðu vonast ég til að hafa að minnsta kosti snert á allra brýnustu álitamálunum og óska góðs samstarfs við nefndina sem fær málið til umfjöllunar.