144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:35]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gefst betri tími til þegar sú nefnd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal leiðir skilar af sér að ræða um það hvernig greiðsluþátttaka sjúklinga eigi að vera, hvort hún eigi að vera í formi 120 þús. kr. greiðslu á hverju ári eða hvað, eins og hefur verið rætt um í fjölmiðlum.

Hæstv. fjármálaráðherra finnst mér skauta svolítið fram hjá því að svara beinum spurningum mínum um S-merktu lyfin og því dæmi sem ég tek enn einu sinni, að það er farið að útskrifa sjúklinga miklu fyrr. Þegar þeir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi falla S-merktu lyfin ekki lengur þarna inn. Það sem ríkisstjórnin er að gera hérna er að láta sjúklinga borga meira fyrir þessi lyf í gegnum almenna greiðsluþátttökukerfið sem komið hefur verið á gagnvart lyfjum.

Ég spyr enn einu sinni um þetta tiltekna dæmi um krabbameinssjúklinga: Er alveg gulltryggt að ríkisstjórnin með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar sé ekki að undirbúa einhverja reglugerðarbreytingu til þess að spara í þessu kerfi, til þess að gera sitt til að ná hallalausum fjárlögum, að það eigi að leggja meiri kostnað á fólk sem kemur á göngudeildir? Er þó kostnaðurinn nægur fyrir eins og ég hef hér mælt um. Einstæð móðir með þrjú börn greindist með krabbamein fyrir tveimur árum; hún hefur borgað um 1,5 millj. kr. vegna þessa.

Ég ítreka, virðulegi forseti, þetta er smánarblettur á þjóðfélagi okkar. Þjóðfélagið getur ekki verið það illa statt að við getum ekki lagt meiri peninga í þetta til að taka þennan kostnað gjörsamlega út. Nóg er nú fyrir fólkið að berjast við þennan illvíga sjúkdóm þótt það þurfi ekki að hafa fjárhagslegar áhyggjur í leiðinni.

Ég ítreka það sem ég sagði. Þetta eru konkret dæmi þar sem fólk opnaði bókhald sitt og sýndi 1.200 manns í Norðurljósasalnum í gær. Þetta átti ekki að koma okkur á óvart, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, en það er ágætt að ræða það hér og færa þessa umræðu hingað inn. Ég spyr hæstv. (Forseti hringir.) fjármálaráðherra hvort við deilum (Forseti hringir.) ekki þessum áhyggjum (Forseti hringir.) og því að (Forseti hringir.) þetta eigi (Forseti hringir.) að afmá.