144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[15:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að það sé alveg skýrt þá er ekki verið að taka upp greiðsluþátttökukerfi á heilbrigðisstofnunum. Til dæmis ef einhver kemur á göngudeild á spítala og fær þar lyfjagjöf, hvort sem er í æð eða með öðrum hætti, er ekki verið að fara fram á það að slíkt verði fellt undir greiðsluþátttökukerfið, heldur eingöngu þegar lyf eru afgreidd utan sjúkrahúsa.

Með vísan í þá þróun sem hv. þingmaður nefnir, að sjúklingar eru almennt útskrifaðir fyrr en lengi var, er það alveg deginum ljósara að frá og með þeim tíma sem sjúklingur útskrifast er hann kominn inn undir greiðsluþátttökukerfið ef hann þarf á lyfjum að halda sem hingað til hafa verið gjaldfrjáls á þeirri forsendu að þau séu S-merkt.

Hér er í raun og veru spurningin bara þessi: Er það sanngjarnt að S-merktu lyfin verði áfram utan greiðsluþátttökukerfisins eða eru einhver rök til þess að taka þau inn? Um það er ég sammála heilbrigðisráðherra sem hefur lagt áherslu á að gæta meira jafnræðis í greiðsluþátttökukerfinu þannig að S-merktu lyfin koma inn eins og önnur lyf.

Þetta hefur ekki nema óbeina snertingu við það sem hv. þingmaður nefnir og varðar hinn gríðarlega kostnað langveikra. Þetta ætti hvorki að bæta né draga úr þeim vanda. Hann er annars eðlis vegna þess að hann snýr að svo mörgum kostnaðarliðum sem við erum ekki með fulla greiðsluþátttöku í. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um að það er mikið misrétti innbyggt í kerfið vegna langveikra. Þeir sitja uppi með langtum hærri kostnað en maður gerði sér grein fyrir. Það er smám saman að koma í ljós. Dæmin sem hann vísaði (Forseti hringir.) til eru til vitnis um það. Þess vegna er nefnd að störfum að skoða þetta eins og ég vísaði til áðan.