144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[15:57]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég skal alls ekki lengja hér mikið umræður um þetta mál þó að það sé að vísu stórt eða a.m.k. í stóru samhengi, ef svo má að orði komast, og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fór ágætlega yfir það. Það er alveg rétt að það er meðal ókostanna við það að horfast í augu við þessa stöðu í opinberu lífeyrissjóðunum, sérstaklega A-deildinni, með því að einfaldlega hækka iðgjöldin, að ríki og sveitarfélög hækki iðgjöldin. Hér er talað um að 0,7% mundi þurfa til að rétta þann halla af eða um 1 milljarð kr. sem lentu þá hjá ríki í hlutföllunum 70:30, 700 milljónir á ríki og 300 milljónir hjá sveitarfélögum. Það drægi þá að sjálfsögðu í sundur sem næmi því að iðgjaldagreiðslurnar væru orðnar enn hærri inn í opinbera kerfið heldur en þær eru í almenna kerfinu. Það kostar náttúrlega líka þessa peninga, þannig að það kann að hafa einhver áhrif líka á hæstv. fjármálaráðherra að menn eru því fegnir að geta frestað þessum útgjöldum.

Ég kvaddi mér hljóðs til þess að spyrjast aðeins fyrir um stöðuna í þessum viðræðum, ég fékk í sjálfu sér að mörgu leyti ágæt svör í framsöguræðu hæstv. ráðherra eftir því sem á hana leið. Það var einmitt þannig að ég mundi þessi ummæli hæstv. fjármálaráðherra frá því í fyrra þegar hann lagði hér fram í fyrsta sinnið, vonandi þá núna í seinna sinnið, beiðni til þingsins um að framlengja enn þetta tímabundna ástand.

Ég vil segja strax að ég er sammála því. Ég tel að það sé ekkert annað að gera, eins og það hefur í raun verið nokkur undanfarin ár. Það er af tvennu illu skárra að horfast í augu við að menn séu ekki búnir að ná utan um þetta heldur en að gefast upp og leggja af stað í aðgerðir sem kannski mundu torvelda lausnina til frambúðar frekar en að auðvelda hana. Það er enginn vafi á því að ef ríki og sveitarfélög gæfust upp og hæfu að greiða meira inn í kerfið, hækka iðgjaldagreiðslur sínar, er ansi hætti við því að það mundi þyngja fyrir fæti á almenna vinnumarkaðnum með þá viðleitni eða þau áform að reyna einhvern veginn að skapa svigrúm til þess í tengslum við kjarasamninga og vonandi hagfellda þróun á komandi árum að hækka iðgjaldagreiðslurnar þeim megin, því að það er það sem þarf að gerast ef við ætlum að ná þessu upp í eitt samfellt jafngilt ávinnslukerfi.

Þá að sjálfsögðu verður að horfast í augu við að opinberu sjóðirnir þurfa að fara í aldurstengda ávinnslu. Það má segja að búið sé að gefa þann tón með breytingunum hjá almennu sjóðunum. Hluti af því að samræma kerfið verður að vera að það sé sams konar ávinnsla báðum megin og líka með tilliti til þessa, að hún sé aldurstengd yfir kerfið í heild.

Þetta er að mínu mati eitt allra stærsta og mikilvægasta viðfangsefnið sem við erum með í höndum, Íslendingar, kannski á eftir afnámi gjaldeyrishaftanna og hvernig menn vinna sig út úr því að leysa út úr hagkerfinu þessa gríðarlegu krónustöðu í höndum erlendra aðila, fyrst og fremst, og svo því að passa upp á ástandið almennt og að við förum ekki aftur út af sporinu í efnahagsmálum og ríkisfjármálum, það eru þessi gríðarlega mikilvægu framtíðarmál sem snúa að lífeyriskerfinu. Við erum minnt á þetta úr öllum áttum.

Það eru hér þingmenn sem eru mjög uppteknir af því að hafa nýlega uppgötvað að þjóðin sé að eldast og halda um það miklar ræður að við þurfum að fara að undirbúa okkur undir það. Það er alveg hárrétt, skárra væri það nú ef við værum ekki að horfast í augu við það að á ekkert mjög löngu árabili, kannski 15–20 árum, hátt í tvöfaldist sá hópur sem er á eftirlaunaaldri sem hundraðshluti landsmanna, fari úr þeim 13–15%, þetta hefur verið upp undir fjórðung á innan við tveimur áratugum. Þá skipta lífeyrisgreiðslurnar auðvitað alveg gríðarlegu máli.

Ég hef svo oft haldið ræðu um það hversu mikið gæfuspor það var fyrir Íslendinga að ramba á sínum tíma inn á þá braut að byggja upp sjóði og byggja hér á sjóðsöfnunarkerfi í staðinn fyrir gegnumstreymiskerfi. Margir sáu ekki alveg gildi þessa á þeim árum sem litlar breytingar voru á aldurssamsetningu þjóðarinnar, en núna held ég að við hljótum að viðurkenna að það er það besta sem við gátum gert og getum enn gert til að undirbúa okkur undir þann tíma þegar hlutfallslega mun stærri hópur er kominn á eftirlaunaaldur að hann hafi tekið með sér sparnað sinn, óskattaðan, í söfnunarsjóðum, samtryggingarsjóðum upp að vissu lágmarki og síðan séreignarsparnað þar ofan á, og ríki og sveitarfélög eigi svo í vændum skatttekjurnar þegar þessi stækkandi hópur fer á eftirlaun og fer að fá borgaðan út lífeyri, því að þá fá þessir aðilar tekjur í samræmi við vaxandi þörf fyrir þjónustu og til að mæta útgjöldum. Það er það sem er svo gullvægt við þessa aðferð borið saman við gegnumstreymiskerfið, vegna þess að hættan er sú, jafnvel þótt menn væru fullkomlega meðvitaðir um þetta og reyndu að undirbúa sig í einhverju slíku gegnumstreymiskerfi, að menn mundi skorta agann til að leggja fyrir. Íslendingar eru ekki alveg norskir í þeim efnum, eins og dæmin sanna. Ég mundi kannski treysta Norðmönnum og jafnvel Hollendingum fyrir þessu, engu að síður hafa Hollendingar farið sömu leið og Íslendingar og eru í fremstu röð hvað varðar það að hafa byggt upp myndarlega fjármagnaða sjóði, það er eiginlega sérflokkur í heiminum þar sem eru Ísland, Holland og Sviss með langbestu stöðuna að þessu leyti, að hafa lagt fyrir í þeim efnum.

Þetta gleymist allt þegar lönd eru borin saman, að horfa til þess hvernig þau eru undir framtíðina búin í þessum efnum. Það þarf ekkert annað en velta fyrir sér stöðunni hjá vinum okkar í Grikklandi sem eru með alla þá erfiðleika á herðunum sem raun ber vitni og algerlega ófjármagnað lífeyriskerfi. Algerlega. Það er núll það ég best veit, nema einhverjir örlitlir einkasjóðir og það eru auðvitað þeir best settu sem gjarnan eiga þá.

Bandaríkin eiga eitthvað í vændum með sínar ófjármögnuðu gríðarlegu lífeyrisskuldbindingar vegna hermanna, opinberra starfsmanna o.s.frv. Þetta er yfirleitt ekki tekið inn í samanburðinn þegar horft er á skuldahlutföll hjá þjóðum og öðru slíku. Þarna stendur Ísland vel að vígi, það er svo langt sem það nær.

Ég nefni þetta hér vegna þess að menn mikla oft fyrir sér og tala um vandann sem er í B-deildinni og í því sem upp á vantar að opinberi hluti lífeyrissjóðakerfisins sé fullfjármagnaður. Já, það eru alveg umtalsverðar fjárhæðir en við skulum ekki gleyma hinu, hversu gríðarlega mikilvægt það er þó sem við höfum í höndunum hér. Því nefni ég þetta líka að það skiptir okkur svo gríðarlegu máli að okkur takist áfram í sæmilega góðri sátt stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að halda utan um þessi mál. Það er mikið á sig leggjandi til þess. Ríki og sveitarfélög eiga alveg gríðarlega mikið undir því að það takist vel til. Þess vegna er ekkert að því í sjálfu sér að horfa til þess að ríkið reyni að vera eins hjálplegt og það mögulega getur í sambandi við það að ná því í höfn að samræma réttindaávinnsluna og helst stefna ótvírætt í áttina að því sem hér er fjallað um, að við náum í höfn með eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Það er auðvitað langbest. Það eyðir þeim núningi sem annars er alltaf líklegur til þess að verða áfram í samskiptum aðila og á vinnumarkaðnum og í tengslum við kjarasamninga. Ef lífeyriskerfin og lífeyrisréttindin eru mjög ólík skekkir það allan samanburð og hefur áhrif.

Munum þó eftir því að þegar upp er staðið er þessi munur minni en menn ætla á milli réttindanna í almenna kerfinu og hinu opinbera. Hvers vegna? Jú, vegna þess að almannatryggingarnar jafna muninn. Þær gera það að mjög miklu leyti. Þegar það er vandlega reiknað út og brotið niður er raunverulegur munur þegar kemur til afkomu lífeyrisþeganna mældur í miklu færri prósentum en mismunandi sjóðsstaða mundi benda til eða mismunandi réttindi mundu benda til í kerfunum. En það er auðvitað ávísun á það að greiðslur ríkisins inn í almannatryggingakerfið eru að því marki meiri.

Þess vegna var gott að heyra að þessi vinna er áfram í gangi. Ég vona að það reynist rétt að hæstv. fjármálaráðherra þurfi ekki að koma oftar með málið inn til Alþingis að hausti í óbreyttri stöðu, að okkur nýtist vel það ár sem í hönd fer til að ná utan um þetta. Við verðum að hafa trú á því, við verðum að vera bjartsýn á það, en ég veit vel að þetta er ekki létt verk. Þetta er ákaflega viðkvæmt, ákaflega brothætt og það má lítið út af bera til þess að sjóði upp úr þessum potti. Lokið er skrúfað á hann í bili, það á að heita friður um að menn séu í þessari vinnu en það er ekki víst að skrúfurnar haldi endalaust og þá getur það lok hreinlega sprungið í loft upp, því að í þessu er alveg gríðarlegt tundur.

Þess vegna er ég líka sammála því að mjög mikilvægt er að við leggjum línur með að hefja inngreiðslur í B-deildina, þótt þær væru mjög litlar. Það er erfitt í ári og stefnir ekki í mikinn afgang en ég væri meira en til í það að reyna einhvern veginn að afla tekna eða gera það mögulegt með ráðstöfunum í ríkisfjármálum að fyrstu inngreiðslurnar færu að sjá dagsins ljós, þó að það væru einungis nokkrir milljarðar í byrjun sem við stefndum svo á að auka í áföngum á næstu árum. Það telur. Safnast þegar saman kemur.

Við sjáum á inngreiðslunum sem þó áttu sér stað, allt of litlar og dró allt of hratt úr þeim eftir breytingarnar 1996, að við værum að sigla í strand með B-deildina núna innan örfárra ára ef ekki hefðu þó komið til þær inngreiðslur sem þá voru og hafa síðan ávaxtast í kerfinu. Það er auðvitað grátlegt og ég hlýt að nefna það, kannski finnst mönnum leiðinlegt að það sé rifjað upp, að menn skyldu ekki á þensluárunum frá 2003, 2004 og til 2007 setja myndarlegar fjárhæðir í kerfið. Það hefði í hagstjórnarlegu tilliti verið mjög jákvætt að taka þá fjármuni úr umferð, reka ríkissjóð með enn þá myndarlegri afgangi og borga inn á kerfið. Síðan hefðu þeir fjármunir ávaxtast að því marki sem þeir hefðu þá ekki tapast í hruninu og við værum betur stödd. En við erum einfaldlega hér og verðum að gera okkar besta úr þeirri stöðu.

Ég á ekki von á öðru en efnahags- og viðskiptanefnd fallist ljúflega á þá beiðni hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að leggja til þessa framlengingu. Ég veit ekki hvaða tíma við getum gefið okkur á haustmissirinu til að fara aðeins ofan í saumana á þessu. Það væri gagnlegt að Alþingi og nefndin fylgdist vel með því hvernig þessi mál eru stödd og hvernig vinnan er á vegi stödd og kölluðu til sín aðila sem eru að véla um það. Í raun og veru vil ég segja að ef það er eitthvað sem við ættum að vera með þétt þverpólitískt samstarf um, óháð öllum landamærum milli stjórnar og stjórnarandstöðu, væru það þessi gríðarlega stóru og afdrifaríku framtíðarmál. Til er ég að minnsta kosti, frú forseti.