144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:14]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef kannski ekki talað nógu skýrt. Ég var engan veginn að tala um að einkarekin fyrirtæki, for-profit fyrirtæki, með leyfi forseta, mundu reka þetta. Ég var að hugsa um að það væri einhvers konar hliðarfyrirkomulag, sama hvort það væri einn tryggingasjóður eða fleiri, sem væri á ábyrgð ríkisins en að ríkissjóður gæti ekki seilst í þá peninga. Það er það sem ég var að hugsa. Þegar ríkisfjármálin eru í einhverju uppnámi, eins og hæstv. þingmaður nefndi, vantar oft agann til þess að seilast ekki í alls konar sjóði. Við sjáum það bara varðandi markaðar tekjur. Stjórnmálamenn hafa ekki aga til þess að láta markaðar tekjur renna þangað sem þær voru markaðar.

Það var það sem ég var að reyna að spyrja þingmanninn að, hvort slíkt mundi ekki auka aga og hver væri þá ókosturinn. Ég var ekki að tala um einkarekin tryggingafélög. Ég var að tala um að það mundi vera einhvers konar fyrirkomulag eins og er á Íslandi þar sem við höfum byggt upp kerfi þar sem fólk er skyldugt til að leggja inn í lífeyristryggingasjóði, sama hvort það eru einn eða margir, að það væri svipað fyrirkomulag þegar kæmi að heilbrigðiskerfinu. Þá væri maður skyldaður til að leggja inn, maður mundi sjá hvað maður legði inn og mundi líta svolítið á það sem sína eign. Að sjálfsögðu mundi maður þurfa að tryggja gegnsæi og slíkt, betra lýðræðislegt fyrirkomulag og betri aðkomu fólks að hlutunum en er í lífeyrissjóðakerfinu á Íslandi, en ég vona að þingmaðurinn skilji hvert ég er að fara. Hann kinkar kolli. Sjáum til hvað hann segir.