144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eftir þetta seinna andsvar átta ég mig aðeins betur á því hvert hv. þingmaður er að fara og skil, held ég, hugsunina í því. Hún er að mörgu leyti áhugaverð, frumleg getum við sagt.

Já, auðvitað væri hægt að hugsa sér að menn tryggðu betur útgjöld til einhverra málaflokka með því að búa um þá þannig að þeir væru mjög vel varðir og eiginlega ósnertanlegir. Við getum sagt að nefskatturinn í Framkvæmdasjóð aldraðra hafi verið þannig hugsaður. Ég geri ráð fyrir því að menn hafi m.a. haft í huga að ef þeir létu sig hafa það að leggja flatan nefskatt á alla og hann væri lagður á í þeim skýra tilgangi að standa straum af uppbyggingu þjónustu við aldrað fólk, hjúkrunarheimila o.s.frv., yrði hann látinn í friði. Og það hefur hann reyndar verið. Að vísu hafa menn aðeins búið sér til svigrúm til þess að færa úr byggingum í nauðsynlega hluta í rekstri eða yfir í leiguleið, en fjármunirnir hafa alltaf haldist innan málaflokksins í því tilviki.

Vandinn er sá að þetta snýst allt um að við þurfum að fara að grípa til svona ráðstafana til að hafa aga á okkur sjálfum af því að við sem löggjafargjald og fjárstjórnarvald treystum okkur ekki og við óttumst að við eða einhverjir aðrir muni seilast í hluti sem eiga að fara í svona mál. (Gripið fram í.) Já, en veruleikinn er auðvitað sá að maður getur aldrei keypt sér tryggingu fyrir þessu. Við erum jafn breysk og við erum og Alþingi er nú einu sinni löggjafarvald og fjárstjórnarvald og getur yfirleitt gert það sem því sýnist í þessum efnum nema brjóta stjórnarskrána. Það þyrfti þá að breyta henni fyrst. Löggjafarvald á voðalega erfitt með að kaupa sér tryggingu fyrir því að löggjafarvaldið sjálft breyti ekki lögum, setji ekki lög. Þetta snýst frekar um að ná pólitískri samstöðu eins og Norðmenn hafa gert um olíusjóðinn, þeir verja hann, (Forseti hringir.) taka fjármunina til hliðar, þeir eru með verklagsreglur, (Forseti hringir.) handlingsreglur um að svo og svo mikið af gróðanum skuli alltaf lagt til hliðar. Með (Forseti hringir.) einni undantekningu (Forseti hringir.) hafa allir norskir stjórnmálaflokkar (Forseti hringir.) síðustu 20 (Forseti hringir.) ár staðið vörð um þessar reglur.