144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

75. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Á löngu árabili höfum við byggt upp lífeyrissjóði sem eru afskaplega sterkir. Í samanburði milli þjóða er okkar lífeyrissjóðakerfi, með söfnun, með þeim sterkari á meðan aðrir eru með gegnumstreymiskerfi og eru t.d. í miklum vandræðum með að ráða við aukinn fjölda aldraðra.

Það má líka geta þess að mesta eign heimilanna er í lífeyrissjóðunum. Húsnæðið bliknar við hliðina á þeirri eign sem er í lífeyrissjóðunum. Það er að meðaltali um 20 milljónir sem hvert heimili á í lífeyrissjóðunum og það er án skuldar, engin skuld á móti, þetta er eignin. En þegar menn reikna út þessa eign og meta hvernig skuldbindingarnar, sem eru væntanlega lífeyrisgreiðslur, standa á móti hafa menn leyft ákveðið bil á milli eigna og skulda. Það var gert til að vera ekki með stöðugar sveiflur á iðgjaldi og réttindum og bilið var ákveðið á sínum tíma 10% til lengri tíma. Hér eru menn að gera tillögu um breytingu á því. Þetta getur maður réttlætt eingöngu vegna þess að staða ríkissjóðs er mjög bág sem stendur, hún er mjög döpur, og menn eru að reyna að komast af. Þess vegna geta menn hugsanlega réttlætt svona breytingar vegna þess að það er hreinlega ekki til peningur, t.d. til að bæta í A-deildina, hvorki með iðgjaldi né að bæta það beint eins og ábyrgð á sjóðnum gefur til kynna, svo maður tali nú ekki um B-deildina þar sem vantar 400 milljarða án þess að það hafi nokkurn tíma verið fært til bókar.

A-deildin átti að standa undir sér, en hún bara gerir það ekki. Það vantaði 60 milljarða síðast þegar ég vissi og sá halli fer vaxandi. Það þyrfti að hækka iðgjaldið um 0,7 prósentustig, eins og kemur fram í greinargerðinni með þessu frumvarpi, á laun allra opinberra starfsmanna til að ná inn fyrir 10% markið og það kostar ríkissjóð mikla peninga. Menn eru sem sagt að fresta því auk þess að taka á því að vinnumarkaðurinn er tvískiptur með mismunandi lífeyrisréttindi.

B-deildin er alveg sérkapítuli. Þar vantar inn í um 400 milljarða, gífurlegar fjárhæðir, og það hefur aldrei verið fært inn í fjárlög. Þess vegna eru áhöld um það hvort ríkisábyrgð sé á því en ég held að menn ætlist nú til þess að ríkið standi við gerða samninga, sem eru kjarasamningar. Það sem ég mundi leggja til að yrði gert nú þegar og mun leggja til í nefndinni er að inngreiðslur í B-deildina verði stöðvaðar þannig að menn séu ekki að halda áfram að ávinna sér þessi makalaust góðu réttindi. Það er hægt að gera það kannski frá og með áramótum 2015–2016, með þeim rökstuðningi að opinberir starfsmenn hafi 12 mánaða uppsagnarfrest. Það eru um 5 þús. manns sem enn þá borga þarna inn og ávinna sér réttindi sem eru miklu, miklu betri en gengur og gerist á vinnumarkaði. Ég mundi leggja til að það yrði gert hið snarasta.

Svo er annað sem menn þurfa líka að skoða, en það er að lífeyriskerfið í dag er í mjög undarlegu umhverfi sem er lokað í fjármagnshöftum. Það veldur því að mikil hætta er á bólumyndun og kerfið sýnir hugsanlega betri afkomu eða betri eignastöðu en hún raunverulega er. Það þurfa menn að hafa líka í huga. Þetta frumvarp gerir reyndar enn betur, leyfir meiri mun á eignum og skuldum, en eignir eru hugsanlega ofmetnar út af þessari bólumyndun. Það er enn eitt sem ýtir á það að menn afnemi gjaldeyrishöftin sem fyrst þannig að lífeyrissjóðirnir geti farið að fjárfesta í útlöndum.

En ég get eingöngu fallist á þetta frumvarp vegna þess að staða ríkissjóðs er bág. Það er eiginlega verið að bíða eftir því að takast á við vandann og ekki sérstaklega gott að fara þessa leið. Ég legg til að þetta verði skoðað vel í nefndinni og sé í rauninni ekki aðra leið en þessa nema þá menn ætli sér að sýna meira tap á ríkissjóði. Tapið er náttúrlega til staðar, raunveruleikinn er þarna úti í bæ með mikinn halla á B-deildinni og vaxandi halla á A-deildinni og sá halli er ekki að fara neitt.