144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um breytingu á lögum um nauðungarsölu. Með lögum nr. 130/2013 var ákvæði bætt við lög um nauðungarsölu þar sem kveðið var á um að fresta mætti nauðungarsölu fram yfir 1. september 2014, sem nú er liðinn, að beiðni gerðarþola. Þetta var byggt á því að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána hafði þá verið kynnt en áætlað var að tillögurnar yrðu komnar til framkvæmda um mitt þetta ár. Þótti því rétt að ráðast í þessa frestun á nauðungarsölum þannig að það gæfist tími fyrir skuldara til að leggja mat á það með hvaða hætti aðgerðirnar varðandi skuldaleiðréttinguna mundu hafa áhrif á skuldastöðu viðkomandi og þá aðstöðu skuldara til að greiða niður skuldir sínar.

Það má gera ráð fyrir því að niðurstaða útreiknings leiðréttingarinnar liggi fyrir í lok september þessa árs og þess vegna kemur þetta frumvarp fram hér til að heimila frekari frestun á nauðungarsölum fram yfir þann tíma er kærufrestur gæti liðið, þ.e. gert er ráð fyrir því að niðurstaða í flestum málum sem varða leiðréttinguna muni liggja fyrir innan sex mánaða frá því að umsóknarfresti um leiðréttingu lánanna lauk. Þess vegna er gert ráð fyrir tímamarkinu 1. mars 2015.

Við fengum til okkar nokkra gesti frá ráðuneytinu, Sýslumannafélagi Íslands, Íbúðalánasjóði, Landssambandi lífeyrissjóða, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum fjármálafyrirtækja sem og Vilhjálm Bjarnason og Guðmund Ásgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna. Jafnframt barst umsögn frá Hagsmunasamtökum heimilanna en vert er að geta þess að nefndinni gafst mjög stuttur tími til að vinna þetta mál enda er núverandi bráðabirgðaákvæði í lögunum runnið út og þess vegna brýnt að koma þessu máli í gegnum þingið hið fyrsta. Nauðungarsölur hafa þegar átt sér stað frá 1. september. Frumvarpinu er ætlað að taka til þeirra og eins þeirra salna sem eru fyrirhugaðar á næstunni.

Fram komu ýmsar athugasemdir sem eru í sjálfu sér kunnuglegar frá því að við tókum samkynja mál fyrir á liðnu þingi en það komu fram athugasemdir um hvort eðlilegt væri að undanskilja þessari heimild kröfur þar sem byggt er á lögveðsrétti, þ.e. þar sem um að ræða kröfur varðandi til dæmis skuldir við húsfélög, lögboðnar brunatryggingar og fasteignagjöld.

Nefndin fjallaði nokkuð um þetta og spurði gesti sína út í þessi sjónarmið en niðurstaðan varð engu að síður sú að leggja til að frumvarpið verði samþykkt hér óbreytt enda er mikilvægt að aðgerðirnar séu einfaldar, reglurnar skýrar og skilmerkilegar.

Að öðru leyti reifum við í nefndarálitinu stuttlega þær athugasemdir sem fram komu á fundum nefndarinnar. Við tökum það sérstaklega fram að framlenging á þessum fresti þjónar því markmiði að gefa skuldurum tíma til að leggja mat á það með hvaða hætti aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa áhrif á skuldastöðu viðkomandi. Það er rétt að það komi fram að það er sem sagt skilyrði samkvæmt þessu frumvarpi að sótt hafi verið um þessa leiðréttingu.

Allir nefndarmenn skrifa undir þetta, tveir með fyrirvara, hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir og jafnframt hv. þm. Jón Þór Ólafsson. Fyrirvarar hv. þingmanna eru tilgreindir í nefndarálitinu og ég hvet hv. þingmenn sem hér eru viðstaddir og aðra sem á hlýða að kynna sér þá fyrirvara.

Að öðru leyti legg ég einfaldlega til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Þeir hv. þingmenn sem skrifa undir þetta nefndarálit með mér eru hv. þingmenn Líneik Anna Sævarsdóttir, Brynhildur Björnsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, með fyrirvara, Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.