144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Þetta er gott mál og kemur fjölskyldum í skjól sem hafa sótt um þessa leiðréttingu. Réttlætingin hjá ríkisstjórninni fyrir að vera með málið þetta þröngt en taka ekki aðra hópa inn í er að þeirra mál sé réttlætt á grundvelli þess að þetta sé aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem getur haft þær afleiðingar að fólk sem fær leiðréttinguna eigi þess kost að koma sér frá nauðungarsölu vegna þess að það nær endum saman hvað það varðar. Það er fyrirvarinn sem ég hef á málinu.

Á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilinu þar á undan, þ.e. ríkisstjórnirnar tvær 2009, um vorið og svo aftur um haustið, samþykktu báðar frumvörp um frestun nauðungarsölu. Í seinna frumvarpinu kemur skýrt fram í upphafi greinargerðar að ástæðan fyrir því hafi verið óeðlilegar aðstæður og að með því að fresta nauðungarsölunum væri fólki gefið tækifæri til þess við þessa óvissu og þessar óeðlilegu kringumstæður að koma undir sig fótunum og forða sér frá nauðungarsölu. Það er engin lagaleg réttlæting fyrir því að aðeins á grundvelli aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar sé hægt að fresta nauðungarsölum. Það er alveg hægt að gera það líka á grundvelli þess að það sé óeðlilegt ástand. Og hvaða óeðlilega ástand er núna sem gefur fólki tækifæri til þess mögulega að koma undir sig fótunum og forða sér frá nauðungarsölu?

Húsnæðislán heimilanna í landinu eru flest verðtryggð og við fáum úr því skorið á næsta ári — EFTA-dómstóllinn gaf nýlega álit á því að það ætti að taka á verðtryggingarmálum heima á Íslandi þannig að íslenskir dómstólar verða að taka á þeim. Það er dómsmál í gangi sem Hagsmunasamtök heimilanna reka gegn Íbúðalánasjóði, ekki um hvort verðtryggingin sé lögleg heldur hvort útfærslan á verðtryggðum neytendalánum — öll húsnæðislán féllu undir það 2001 — sé lögleg. Í þeim lánum var reiknuð 0% verðbólga og það er ólögmætt — segja hverjir? Jú, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kom með álit um að það væri ólögmætt. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, segir að það sé ólögmætt, Neytendastofa á Íslandi segir að það sé ólögmætt og seinna í þessum mánuði eða byrjun þess næsta þarf EFTA-dómstóllinn aftur að gefa álit um nákvæmlega þetta atriði, ekki hvort verðtryggingin sé lögleg og hvort eigi að taka ákvörðun um hana heima í héraði heldur um þetta atriði, hvort það að reikna 0% verðbólgu inn í verðtryggð neytendalán séu ólögmætir viðskiptahættir. Málið sem Hagsmunasamtökin reka fyrir héraðsdómstólum núna gegn Íbúðalánasjóði er byggt á nákvæmlega þessum grunni. Hæstiréttur hefur aldrei farið gegn áliti EFTA-dómstólsins þannig að það eru virkilega góðar líkur á því, a.m.k. líkur, við þessar óeðlilegu kringumstæður að fólk fái leiðréttingu á næsta ári, hugsanlega í mars, hugsanlega um mitt ár, í síðasta lagi um mitt ár ef eðlileg dómsmeðferð á sér stað. Það eru verulegar líkur á að obbinn af höfuðstólshækkuninni vegna verðtryggingarinnar fari. Það getur gerst á næsta ári. Og þá munu svo sannarlega þessi heimili landsmanna ekki verða fyrir nauðungarsölu. Við höfum lagaleg fordæmi fyrir því að fresta nauðungarsölu á grundvelli óeðlilegra kringumstæðna sem þetta vissulega er. Þetta varðar dýrustu eign landsmanna, flestir eru með verðtryggð húsnæðislán. Þetta eru mjög óeðlilegar kringumstæður. Þetta kemur að sjálfsögðu til vegna hrunsins og þessi leiðrétting mun eiga sér stað. Það eru algjörlega lagaleg rök og fordæmi fyrir því að gera þetta. Það er það sem í rauninni segir í fyrirvaranum.

Ég er að sjálfsögðu hlynntur því að þeir sem ríkisstjórn heimilar að fái þetta á grundvelli þess að þeir hafa sótt um leiðréttingu út af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar fái þetta. Ég hef stutt málið og vil hraða því eins og við getum en það þarf að benda á þetta. Það er ekki rétt að þetta sé ekki gerlegt og það hefði alveg verið gerlegt að undirbúa þetta. Eins og þeir sem hafa fylgt þessu máli vita hef ég talað fyrir þessu mjög lengi og ég talaði fyrir þessu líka þegar fresturinn var um síðustu jól veittur til 1. september. Það hefði alveg verið hægt að undirbúa þetta og fara þessa leið.

Við skulum hafa það bara á hreinu að þetta eru atvik málsins og þetta er staðan. Það er gleðilegt að þeir sem komast inn í þetta, þeir sem hafa sótt um leiðréttinguna, sama þótt þeir ættu ekki rétt á henni og vissu það jafnvel, fái þennan frest. Það er kannski gallinn við það en það þarf að gera þetta samt sem áður einfalt. Það er alveg hægt að gera það sama með verðtryggð neytendalán.