144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

nauðungarsala.

7. mál
[16:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að fella dóma í ræðustól Alþingis. Ég tel að dómstólar séu einfærir um það og þrískipting valdsins er í gildi.

Það sem ég vildi benda á í sambandi við þetta mál er að í fyrsta lagi finnst mér skorta á að vita hversu margir eru í þessum hópi sem falla undir lögin. Þarna er eflaust einhver hópur og margir í mjög erfiðri stöðu og er sjálfsagt að hliðra til og lengja þann frest sem þeir hafa til að við getum þá ráðið við það. Mjög margir hafa lagt hart að sér við að greiða niður lán og annað slíkt en svo hefur maður líka heyrt dæmi um að fólk hafi keypt eignir fyrir hrun, aldrei borgað neitt, búið í eigninni áfram og muni enn frekar fá frest til að greiða ekki neitt en búa samt í húsinu. Þetta er neikvæða hliðin á þessu en auðvitað má maður ekki horfa of mikið á svoleiðis dæmi. Maður hlýtur að skoða hag þeirra sem raunverulega eru að reyna eins og þeir mögulega geta að greiða og standa í skilum, geta það oft ekki en gera það sem þeir geta.

Ég er hlynntur þessu frumvarpi og þessu nefndaráliti og einnig þeim rökstuðningi sem þar kemur fram þannig að ég er sammála þessu.