144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[16:56]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Fyrst hvað skiptir mestu máli þarna. Ég held að þetta skipti allt máli. Ég held að hvaðeina sem yrði orðið við mundi skipta máli.

Hvað varðar verk- og tækninám sérstaklega þá er það vandamál að þegar við göngum í gegnum niðurskurðartíð, eins og þá sem við gengum í gegn eftir hrun, er verknám einfaldlega dýrara en bóknám vegna þess að verknemendur þurfa tæki og þeir þurfa efnivið, það þarf hefilbekki, timbur, járn og það þarf logsuðugræjur og alls konar hluti. Það er ódýrast fyrir samfélagið að búa bara til lögfræðing úr öllum. Þeir þjappast mjög vel, alveg eins og sardínur í dós. Það er hægt að koma 500 fyrir í einu og sama herberginu með einum kennara. Þess vegna er því miður allt of mikil áhersla lögð á bóknám á Íslandi.

Það sem við náðum að gera og ég vil meina að hafi verið mikil tímamót er að við náðum að vinna aðeins á því ástandi að við erum eftirbátar nágrannaríkjanna í verknámi á þessum niðurskurðartímum. Það var vegna þess að við sóttum sértækar fjárveitingar í Atvinnuleysistryggingasjóð, fengum samstöðu við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur um mikilvægi þess að peningar fylgdu úr þeim sjóði inn í framhaldsskólakerfið tengt sérstaklega hverjum og einum nemanda þannig að þetta væru ekki bara peningar sem væri verið að henda í hítina. Þar með fengu skólarnir umgjörð til að bjóða nám sem þeir hefðu kannski ekki getað boðið annars. Þeir gátu fyllt heilu og hálfu kúrsana í verkmenntun. Ég meina, það fylltist í kjötiðnaðarnám í fyrsta skipti í langan tíma. Það hafði (Forseti hringir.) ekki sést kjötiðnaðarnemi frá því fyrir hrun. Svona mætti lengi telja.