144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[16:59]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við áherslur ríkisstjórnarinnar geri ég mér alveg vonir um að hún horfi bæði á skattbreytingaþáttinn gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum og tryggingagjaldinu og að hún horfi líka á einhvers konar rýmkun á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóðanna.

Ég hef áhyggjur af stefnumörkun menntamálaráðherra í framhaldsskólamálum því að mér finnst hún of gamaldags. Ofuráhersla á að stytta námið samhliða, að því er mér finnst, óþægilega mikilli miðstýringaráhættu, að allir þurfi að læra það sama, er held ég ekki það sem við þurfum. Það er fjöldi fólks sem á mjög erfitt með að læra tungumál en getur virkað mjög vel í samfélagi og þarf ekki að afla sér framhaldsmenntunar. Það er algerlega úrelt að vera stöðugt að hrinda fólki burtu úr framhaldsskólakerfinu af því að það getur ekki lært dönsku, á erfitt með réttritun eða ræður ekki við kvíslgreiningar eða aðrar akademískar málfræðiæfingar sem einhverra hluta vegna eru grundvallaratriði í framhaldsnámi. Það er þessi þáttur sem ég held að sé nokkuð sem við þurfum að takast á við í sjálfsmynd okkar, þessi ofuráhersla á að allir þurfi að læra það sama og að enginn geti verið góður Íslendingur nema kunna réttritun upp á 10 og kunna utan að alls konar hluti úr bókmenntafræði o.s.frv. Þarna held ég að við þurfum einfaldlega að breyta viðhorfi okkar. Það að geta ekki lært tungumál er alveg eins og að geta ekki lært eitthvað annað. Það er fullt af hlutum sem við getum ekki lært, fullt af hlutum sem ég mun ekki geta lært og það er engin ástæða til þess að fólk geti ekki fengið framhaldsmenntun og fullnægjandi starfsréttindi í greinum þar sem reynir ekki á þá þætti.