144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

aðgerðir til að efla lítil og meðalstór fyrirtæki og fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði.

13. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Einn ágætur skólameistari í framhaldsskóla sagði mér að hann hefði beðið kennara sína um að senda sér það sem yrði að vera algert lágmark, sem allir yrðu að læra í menntaskóla, ekki óskalista heldur bara það sem allir mundu þurfa að læra í fagi viðkomandi. Hann fékk sent frá öllum og lagði saman það sem þeir höfðu gert og það var komið í sex ára framhaldsskólanám. Allir vilja að allir læri allt sem þeir lærðu sjálfir í sínu eigin fagi og líka allt sem þá hefði langað til að læra. Þetta er veikleiki okkar.

Veikleiki okkar er líka sá, eins og annar góður skólamaður sagði við mig, að íslenska skólakerfið er eini vinnustaðurinn í heiminum sem hefur þá einu lausn að ef þú getur ekki eitthvað þá ertu látinn gera meira af því sem þú getur ekki gert. Hvergi annars staðar er hægt að finna vinnustað sem leysir vandamálin sem felast í því að þú getur ekki leyst eitthvað með því að láta þig gera meira af því. Þetta er annar vandi.

Ég held að báðar þessar dæmisögur geti sagt okkur mikið um hvernig við þurfum að feta okkur áfram. Vissulega, með leik og nýjum aðferðum, með ákveðnu umburðarlyndi gagnvart því að til að allir geti notið framhaldsnáms til starfsréttinda verður að hemja kröfur um samræmingu náms. Það verður að hemja kröfur um að allir þurfi að læra að lágmarki fullt af hlutum og leggja áherslu á að göfga fólk og bæta það í því sem það er gott í.