144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu. Samkvæmt tillögunni yrði skipaður starfshópur, með fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, sem fengi það hlutverk að gera þriggja ára áætlun um uppbyggingu þessara mikilvægu þátta í samfélagi okkar út frá endurskoðaðri ríkisfjármálaáætlun. Þessi áætlun yrði höfð til hliðsjónar við fjárlagavinnu á komandi árum.

Það er ekki nokkur spurning að oft eru teknar mjög stórar stefnumótandi ákvarðanir í fjárlögum hvers árs og oft koma þær breytingar jafnvel þingmönnum á óvart því að ekki hefur farið fram nein raunveruleg umræða um stefnumótunina á bak við slíkar ákvarðanir.

Tilefni þessarar tillögu er að reyna að búa til samtal milli allra þingflokka um hver forgangsverkefnin eigi að vera við uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar, menntakerfisins og velferðarþjónustunnar þannig að hægt sé að forgangsraða í fjárlögum á hverju ári út frá þeirri forgangsröð.

Grundvöllur þessarar þingsályktunartillögu, sem hefur verið lögð fram áður, er auðvitað jafnt og þétt batnandi staða ríkissjóðs undanfarin fjögur ár. Þrátt fyrir gífurlegt efnahagsáfall í tengslum við hrun íslensku bankanna síðla árs 2008, með tilheyrandi skuldsetningu og tekjutapi ríkissjóðs, hófst efnahagsbati strax í lok ársins 2010 sem hefur skilað sér jafnt og þétt í batnandi afkomu ríkissjóðs. Nú er svo komið að tekjuhalli ríkissjóðs reyndist einungis 732 millj. kr. á árinu 2013 en þegar við berum það saman við hallann í ríkisreikningi ársins 2010 kemur í ljós að hann hefur batnað um rúma 120 milljarða kr. jafnt og þétt; fór úr 123,3 milljörðum kr. árið 2010 í 89,4 milljarða árið 2011, þaðan í 35,8 milljarða og loks undir milljarð kr. árið 2013. Ef rétt er haldið á spilum ætti þessi þróun, jafnt og þétt batnandi staða ríkissjóðs, að halda áfram.

Það er mikilvægt að við áttum okkur ekki á því að hér inni erum við ekki öll sammála um hvaða leiðir er best að fara til að ná fram þessari bættu stöðu ríkissjóðs. Sú sem hér stendur og aðrir sem tóku þátt í síðustu ríkisstjórn bentu á að tekjustofnar ríkisins hefðu kerfisbundið verið veiktir í tíð fyrri ríkisstjórna og stóðu engan veginn undir þeim miklu útgjöldum og tekjutapi ríkissjóðs sem efnahagshrunið hafði í för með sér. Það var því eitt höfuðverkefni síðustu ríkisstjórnar að styrkja þessa tekjustofna aftur og ríkisfjármálin njóta nú góðs af því. Með auknum hagvexti og minnkandi atvinnuleysi undanfarin ár og komandi ára má gera ráð fyrir að þessir tekjustofnar skili verulegum tekjuauka í ríkissjóð samfara því að ýmis hruntengd útgjöld fara væntanlega minnkandi.

Þess vegna höfum við bent á að það er höfuðatriði að tekjustofnar ríkisins verði ekki aftur veiktir frá því sem nú er. Það er því mikið áhyggjuefni þegar við til að mynda horfum upp á það að tekjustofn á borð við auðlegðarskatt er tekinn niður. Hann var vissulega tímabundinn á sínum tíma en gæti eigi að síður nýst gríðarlega vel til uppbyggingar í samfélaginu. Sama má segja um lækkun veiðigjalda. Og með því að missa þessar tekjur sem samstaða var um í samfélaginu er í raun verið að draga úr möguleikum ríkisins til að reka velferðarsamfélag að norrænni fyrirmynd af því tagi sem flestir vilja sjá hér á landi. Þetta er varhugaverð þróun.

Ef tekjumöguleikar ríkisins verða hins vegar ekki skertir enn frekar og jafnvel styrktir með einhverjum hætti, svo sem með aukinni gjaldtöku af nýtingu auðlinda, og þá er ég ekki aðeins að tala um sjávarauðlinda, má gera ráð fyrir að nokkurt svigrúm geti myndast í ríkisfjármálum til að hefja að nýju uppbyggingu í velferðar- og menntakerfi landsins. Fyrir síðustu kosningar lögðum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði fram endurskoðaða ríkisfjármálaáætlun sem miðaði við þáverandi tekjustofna og hugsanlega frekari nýtingu auðlindagjalda. Við töldum að þetta svigrúm til uppbyggingar gæti numið samtals um 50–60 milljörðum á næstu þremur árum væri rétt á málum haldið í ríkisfjármálum; og það þó að um leið væri gert ráð fyrir allverulegri lækkun ríkisskulda á sama tímabili. Við teljum þessa tillögu því varfærna og ábyrga.

Síðan eru margháttuð rök fyrir sókn í velferðar- og menntamálum og til að mynda sýna rannsóknir, bæði innlendra og erlendra fræðimanna, að of mikill niðurskurður á hinum samfélagslegu innviðum getur dýpkað og framlengt efnahagskreppu. Í greinargerð er til að mynda rakið hvaða afleiðingar niðurskurður hafði á velferðarkerfið í Suðaustur-Asíu í upphafi tíunda áratugar 20. aldar þegar þar gekk yfir kreppa í kjölfar offjárfestinga og efnahagslegrar þenslu. Þar mátti beinlínis sjá bein tengsl milli versnandi heilsufars viðkomandi þjóða og niðurskurðar í velferðar- og heilbrigðiskerfum. Eina undantekningin á þessu var, ef ég man rétt, Malasía sem fór aðra leið þannig að við höfum beinlínis samanburðardæmi í þessum efnum.

Þá bætast sífellt fleiri í hóp fræðimanna sem benda á að erfiðleikar á evrusvæðinu eigi rætur að rekja til of harkalegs niðurskurðar og þá sérstaklega í velferðarmálum. Bretland hefur til að mynda verið nefnt sem dæmi þar sem niðurskurður hefur leitt hagkerfið í gegnum þrefalda efnahagsdýfu. Gagnstætt leið Breta hefur bandaríski nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, talið að sú forgangsröðun í þágu velferðar sem þó hefur átt sér stað á Íslandi í gegnum kreppu hafi reynst árangursrík.

Félagslegar afleiðingar of mikils niðurskurðar eru sérstakt áhyggjuefni en í skýrslu OECD um jöfnuð frá árinu 2013 kemur fram að vegna niðurskurðar í fjölmörgum ríkjum hafi kjör þeirra er standa höllum fæti í samfélaginu og tekjulágra skerst mun meira hlutfallslega en þeirra sem mestar tekjur hafa í kjölfar efnahagskreppunnar 2008. Þessar niðurstöður voru ítrekaðar í nýrri skýrslu OECD um jöfnuð frá júní 2014 þar sem fram kemur að ójöfnuður jókst umtalsvert í flestum löndum OECD á milli 2007 og 2011. Ísland er þar meðal fárra undantekninga sem rakið er til markvissra aðgerða fyrri ríkisstjórnar til að verja lægstu tekjuhópana, svo sem með stórauknum vaxtabótum, upp á yfir 18 milljarða kr. árið 2011, og breytingum á skattkerfi með upptöku þrepaskipts skattkerfis. Sem betur fer hefur Ísland því ekki fylgt þeirri þróun sem er víðast annars staðar að tekjuójöfnuður hafi aukist í kjölfar efnahagsþrenginga, en til að svo verði ekki á næstu árum þarf að huga sérstaklega að lægstu tekjuhópunum og öðrum sem eiga undir högg að sækja.

Þó að tölurnar sýni að tekist hefur að verja kjör lægstu tekjuhópanna eru samt sem áður mjög mörg brýn úrlausnarefni sem þarf að huga að. Samkvæmt nýlegri skýrslu Barnaheilla frá apríl á þessu ári búa til að mynda 16% íslenskra barna við hættu á fátækt eða félagslega einangrun og sú tala hefur hækkað frá hruni. Eins og bent er á í þeirri skýrslu er menntun ein helsta leið barna út úr fátækt og einangrun og því mikilvægt að efla menntakerfið til að sporna við þessum vanda og tryggja gjaldfrelsi þess á sem flestum skólastigum. Í þessu sambandi er einnig rétt að benda á að samkvæmt nýlegri skýrslu Hagstofunnar er skortur á efnislegum gæðum, sem er ný mæling á lífskjörum fólks, langtum mestur meðal einstæðra foreldra, sem eðli málsins samkvæmt nýta sér mennta- og velferðarkerfið í meiri mæli en aðrir. Og staða einstæðra foreldra á Íslandi er heldur verri en í nágrannalöndunum.

Jöfnuður er yfirleitt nátengdur velsæld samfélaga og það er engin tilviljun að þeim ríkjum þar sem jöfnuður hefur verið mestur í sögulegu samhengi, eins og til dæmis á Norðurlöndunum, hefur líka vegnað best þegar kemur að almennri velsæld borgaranna og hagsæld samfélaganna. Ójöfnuður hefur hins vegar vaxið í alþjóðlegu samhengi. Má þar til að mynda vitna til bókar franska hagfræðingsins Thomas Piketty, Capital in the Twenty-First Century — ég segi þetta á ensku þó að bókin hafi að sjálfsögðu komið út á frönsku. Samkvæmt henni á ríkasta 0,1% prósentið í heiminum um það bil 20% af öllu auðmagni í heiminum og auðugasta eina prósentið, um 45 milljónir manna, á um 50% af öllum auði heimsins. Ójöfnuðurinn er gífurlegur og Piketty telur að þá þróun megi rekja til þess að auðmagnsrentan sé hraðari en almennur vöxtur og á þeirri þróun sé einungis unnt að hægja með framsæknu skattkerfi þar sem hinir ríku leggi hlutfallslega meira til samfélagsins af tekjum sínum en hinir tekjulægri og auðmagnið er skattlagt, helst þvert á landamæri því að reynslan er auðvitað sú að auðmagnið leitar þangað þar sem það er ekki skattlagt, í skattaparadísir.

Þá ætla ég að víkja að forgangsröðuninni sem ég gerði að umtalsefni í byrjun ræðu minnar. Það er ljóst að mörg verkefni eru brýn á þessum þremur sviðum og því þarf að leggja vinnu í að greina hvar þörfin er mest og hvernig eigi að forgangsraða. Þegar við skoðum menntakerfið og skólana okkar þá er til að mynda ljóst að íslenska háskólakerfið er vanfjármagnað, borið saman við önnur OECD-ríki. Ísland er undir meðaltali þegar kemur að fjármögnun háskólastigsins — ég miða við framlög á hvern nemanda — og langt á eftir öðrum Norðurlöndum. Það hefur verið talsvert til umræðu og hefur verið undirstrikað, meðal annars þegar Háskóli Íslands fagnaði aldarafmæli, að markmið stjórnvalda væri að koma háskólanum upp úr þessum öldudal og jafna fyrst meðaltal OECD-ríkja og reyna að færa sig nær Norðurlöndunum í þróun. Það er mjög lítið í fjárlagafrumvarpi ársins í ár sem gefur til kynna að þessi þróun stöðvist og það er áhyggjuefni.

Það er líka ljóst að þegar íslenskir framhaldsskólar eru bornir saman við framhaldsskóla í öðrum OECD-ríkjum kemur fram að þar er Ísland nálægt meðaltali í kostnaði en hins vegar ljóst að aukin krafa á framhaldsskólanám í heimabyggð í stóru og strjálbýlu landi mun hafa og hefur haft aukinn kostnað í för með sér sem og aukin áhersla á verk- og starfsnám. Og af því að hv. þm. Árni Páll Árnason var að ræða það hér áðan, í flutningsræðu sinni um mál Samfylkingarinnar, þá nefni ég að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er vinnustaðanámssjóður þurrkaður út, þ.e. sá sjóður sem fyrirtæki geta sótt í til að taka nemendur á samning. Það er ein stærsta hindrunin fyrir því að nemendur geti lokið iðnnámi hér á Íslandi að þeir komast ekki á samning. Þetta var því mjög mikilvægt skref sem var stigið 2011 en nú er það stigið til baka.

Í þriðja lagi má nefna, í tengslum við eflingu menntakerfisins, kjör kennara en þar sýna líka alþjóðlegar tölur að íslenskir kennarar eru fremur aftarlega á merinni miðað við starfssystkin sín í öðrum OECD-ríkjum.

Að lokum má nefna hugmyndir sem hafðar hafa verið uppi og eru settar fram í frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna um að hluti höfuðstóls námslána falli niður ef nemendur ljúka háskólanámi á tilskildum tíma og kerfið verði þannig byggt upp á blöndu styrkja og lána.

Þá kem ég að heilbrigðisþjónustunni og þar eru mjög mörg úrlausnarefni, meðal annars kjör heilbrigðisstétta. Síðasta ríkisstjórn setti af stað sérstakt jafnlaunaátak, meðal annars til að bæta kjör kvennastétta innan heilbrigðisþjónustunnar. Í ljósi þess að í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er reifað að íslenska heilbrigðiskerfið þurfi að vera samkeppnisfært. Þar hljóta bætt kjör heilbrigðisstétta að vera forgangsatriði. Ég nefni líka nýjan Landspítala en mín skoðun er sú að langtum hagkvæmast sé að sá spítali verði opinber framkvæmd. Það er hagkvæmasta leiðin til að ráðast í þá framkvæmd en hún er mjög mikilvæg fyrir landsmenn alla. Hún mun bæta rekstur sjúkrahússins til lengri tíma og bæta aðstöðu starfsfólks en spítalinn er nú rekinn á 17 stöðum á höfuðborgarsvæðinu.

Í þriðja lagi nefni ég stóreflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar í kerfinu sem væntanlega mun skapa langtímahagræðingu í heilbrigðisþjónustunni með því að draga úr álagi á sérfræðiþjónustu og sjúkrahús. Eitt lítið mál sem ég hef lagt fram hér, með stuðningi þingmanna úr þremur öðrum flokkum, lýtur einmitt að því að nemendur í framhaldsskólum hafi aðgang að heilsugæslu, getum við sagt, rétt eins og nemendur í grunnskólum hafa, inni í skólunum. Það er til að mynda eitt af því sem hefur verið sýnt fram á að ástæður brottfalls í framhaldsskólum á Íslandi, sem er of hátt, lúta að mörgu leyti að ýmsum þáttum sem ekki snúast um námsframboð eða gæði náms, þó að það komi líka þar inn í, heldur ekki síður um sálfélagslega þætti, félagslegar aðstæður og heilbrigði.

Ég vil síðan nefna það þegar við ræðum velferðarþjónustuna, stóru myndina, að þá ber kannski hæst fyrirkomulag almannatrygginga sem nauðsynlegt er að breyta til lengri tíma og tryggja þar með hag öryrkja og aldraðra til langs tíma. Síðan er það húsnæðiskerfið en við erum að fara að ræða tillögur um það. En það er nokkuð lýsandi fyrir skort á stefnumótun. Þegar við horfum á húsnæðismálin í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þá er vitnað til þess að gert sé ráð fyrir ákveðnu framlagi til Íbúðalánasjóðs og sagt að þetta muni nú allt skýrast fyrir 2. umr. fjárlaga. Þessi tillaga snýst um það að við reynum einmitt að vinna að fjárlögum í takt við stefnumótun sem búið er að vinna og helst þá í sem mestu samráði allra flokka. Húsnæðismálin eru velferðarmál því að það er hluti af því samfélagi sem við viljum byggja að allir geti tryggt sér þak yfir höfuðið og við höfum því miður mörg dæmi um að fólk nýtur ekki þeirra gæða.

Virðulegi forseti. Sá stöðugi efnahagsbati sem hófst árið 2010 ásamt þeim árangursríku breytingum sem þá voru gerðar á tekjuöflunarkerfi ríkisins hafa myndað svigrúm til að hefja varfærnislega sókn, ef svo má segja, í heilbrigðis-, mennta- og velferðarmálum þjóðarinnar. Slík sókn er mikilvæg því að hún stuðlar að áframhaldandi efnahagsbata í stað stöðnunar eða jafnvel framlengingar efnahagsþrenginga. Hún tryggir að barnafjölskyldur og lágtekjuhópar sitji ekki eftir í áframhaldandi efnahagsbata sem fram undan er ef stjórnvöld halda rétt á spilunum og hún tryggir að þær ákvarðanir sem við tökum í fjárlögum á hverju ári byggist á raunverulegri stefnumótun en komi ekki hér inn sem nýjar hugmyndir afgreiddar í gegnum krónutölur í stað þess að fram fari umræða um þá stefnu sem eigi að taka.

Við viljum setja þetta í samhengi því það eru visst margar krónur í ríkissjóði og þessu þarf að forgangsraða. Ég nefndi bara nokkur verkefni. Ég get sagt um þau öll að þau séu brýn, þau eru það, en það þarf samt sem áður að raða þessu upp og velja og hafna hvar eigi að hefja sóknina ef vilji er til að hefja sókn í þessu máli.