144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:26]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og fagna því sem hann segir um nauðsyn þess að við bætum aðferðafræði okkar í því hvernig við leggjum línurnar, mótum stefnuna.

Grunngildin þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni — það eru ýmsar spurningar sem við þurfum að svara þar. Ein af þeim spurningum sem mér finnst við þurfa að svara strax í tengslum við fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir er hvert við ætlum að stefna með greiðsluþátttöku sjúklinga. Við höfum horft á það að hún hefur til að mynda verið á leið upp á við. Fyrir því eru ýmsar ástæður, meðal annars það að fjölgað hefur ferliverkum í stað innlagna áður á spítala og annað slíkt. Það eru alls konar ástæður fyrir þessu. Mér finnst mjög mikilvægt að við ræðum til að mynda þetta grundvallarprinsipp því að þarna erum við á leiðinni frá öðrum Norðurlöndum þar sem er talsvert minni greiðsluþátttaka.

Þessi greiðsluþátttaka — við höfum ekki náð neinni lendingu um þetta. Að vísu hafa verið starfandi tvær nefndir um þessi mál, en ég mundi vilja sjá þetta sett í samhengi við önnur forgangsverkefni á sviði heilbrigðismála. Nýr Landspítali er annað dæmi. Við samþykktum tillögu um að þetta væru forgangsverkefni á síðasta þingi. Þannig að gildin finnst mér hljóta að lúta að því að við séum að bjóða upp á góða heilbrigðisþjónustu og aðgengi allra landsmanna að henni, óháð búsetu, efnahag og öðrum slíkum þáttum.