144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur stundum verið rætt hér í pontu hvort við séum að fara að jafna aðgang sjúklinga upp á við eða niður á við, þ.e. ætlum við að draga úr þessum kostnaði eða ætlum við að jafna kostnað allra upp á við. Mitt svar við því er að auðvitað erum við að fara að jafna þennan kostnað niður á við ef við mögulega getum. Það sem við þurfum að velta fyrir okkur er hvað séu eðlileg mörk, eðlilegt að sjúklingur greiði fyrir læknismeðferð, fyrir lyfjakostnað, fyrir þennan eða hinn sjúkdóminn. Ég skil alveg þá hugsun sem er til að mynda á bak við greiðsluþátttökukerfi lyfja, að það sé ákveðið jafnræði á milli ólíkra sjúkdóma, sem var hugsunin á bak við það kerfi. En við þurfum líka að velta því fyrir okkur hvort mörkin sem hafa verið sett um kostnað sjúklinga, hver megi vera hámarkskostnaður sjúklinga, liggi ekki of hátt. Eins og hv. þingmaður segir segjast allir vera sammála aðgengi án efnahags, en við erum samt sem áður að horfa í það að í fyrra var ætlunin að ná í 250 milljónir með því að setja inn komugjöld á spítala og núna er verið að leggja til viðbótargjöld á sjúklinga, m.a. með því að hækka þakið á greiðsluþátttökukerfi lyfja og setja S-merkt lyf sem eru utan heilbrigðisstofnana undir þetta kerfi. Þetta á að skila ríkinu 305 milljónum. Þær 305 milljónir, hvaðan koma þær? (Gripið fram í: Hvað neita margir sér um heilbrigðisþjónustu í dag?) Þær koma auðvitað frá sjúklingum.

Þetta er eitthvað sem mér finnst mikilvægt að við ræðum í þessu stóra samhengi. Eins og ég segi eru málin mörg brýn. Ég get sagt að mér finnst þetta allt gríðarlega brýnt. Við vitum líka að það eru bara X margar krónur til og þá þurfum við að reyna að koma okkur saman um forgangsröðun og hvaða framfaraskref við viljum taka fyrir menntakerfið, heilbrigðisþjónustuna og almannaþjónustuna eða velferðarþjónustuna.