144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

efling heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu.

14. mál
[17:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að koma aðeins inn í umræðuna um þá tillögu sem hefur verið mælt fyrir, um þriggja ára áætlun um eflingu heilbrigðisþjónustu, menntakerfis og velferðarþjónustu. Ég held að á þeim tímum sem við lifum á núna, þegar við erum að mestu leyti að komast út úr kreppunni, sé mjög gott fyrir okkur sem þjóð að skoða þessa þætti alla saman sem heild, heilbrigðisþjónustuna, menntakerfið og velferðarþjónustuna, því að í raun styðja allir málaflokkarnir hver annan.

Ég tel mjög mikilvægt, burt séð frá pólitík og flokkum, að við náum einhvers konar samfélagssátt um hvernig við viljum þróa þessa málaflokka til framtíðar fyrir börnin okkar og fyrir þá sem landið erfa, eins og oft er sagt. Þetta er eitthvað sem við getum ekki verið að henda á milli okkar við stjórnarskipti, það er eins og við séum að henda fjöreggi þjóðarinnar á milli okkar. Það vill oft verða, eins og hefur komið í ljós eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, að menn fara að krukka í ýmislegt hér og þar án þess að sjá hlutina í heildarsamhengi, krukka í eitthvað sem hafði tekist vel í menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni eða velferðarþjónustunni almennt. Það er ekki alltaf verið að horfa á að það geti gengið áfram þótt nýir flokkar sitji við stjórnvölinn næstu fjögur árin. Ég held að það sé mikil sóun fyrir okkur sem samfélag þegar við sjáum ekki lengra fram í tímann en fjögur ár í einu. Við verðum að hafa einhverja samfellu í þessu. Það veit ekki á gott ef við erum alltaf að byrja upp á nýtt og leita einhverra leiða, kannski eingöngu til þess fylgja ekki í fótspor fyrirrennara ríkisstjórna, ráðherra og annarra.

Ég tel að við eigum að reyna að ná góðu samtali, sem er lagt hér til, á milli allra stjórnmálaflokka um að gera þessa áætlun. Þó að hver ríkisstjórn hafi vissulega sína stefnu og þær séu ekki eins og fyrri ríkisstjórna, þá hljótum við að geta sameinast um grunnforsendur í öllum þessum málaflokkum. Það skiptir miklu máli fyrir búsetu hér á landi því að eins og við vitum er framboðið mikið þegar kemur að því hvar fólk vill setjast að og það er allt undir, allur heimurinn er undir, það eru engin átthagabönd lengur í þeim efnum. Við verðum að vera samkeppnishæf sem þjóð í þessu og hafa þann metnað að setja markið hátt og stefna hátt og forgangsraða eftir því í ríkisfjármálum.

Við sjáum fram á að ef vel er haldið á málum eigi að vera möguleikar á því á næstu árum að leggja mikinn og aukinn kraft í þessa málaflokka sem vissulega urðu fyrir skerðingu eftir hrun, hjá því varð ekki komist. Nú eigum við að sameinast um að byggja upp öfluga heilbrigðisþjónustu, öflugt menntakerfi og öfluga velferðarþjónustu, því að þá getum við skapað þannig samfélag að það verður eftirsóknarvert fyrir unga fólkið okkar og fyrir þá sem hér búa að búa hér til framtíðar.