144. löggjafarþing — 8. fundur,  18. sept. 2014.

heilbrigðisþjónusta.

76. mál
[17:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga.

Frumvarpið er samið í velferðarráðuneytinu að höfðu samráði við embætti landlæknis og Landspítala. Tilefni þess er innleiðing á tilskipun nr. 2010/53/ESB, um kröfur varðandi gæði og öryggi líffæra úr mönnum sem eru ætluð til ígræðslu.

Yfir landamæri ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu eiga sér stað á hverju ári töluverð skipti líffæra til ígræðslu, en reglur einstakra ríkja eru hins vegar misjafnar og með tilskipuninni verður þannig komið á samræmdum reglum í því skyni að tryggja öryggi líffæraþega og líffæragjafa.

Í tilskipuninni er lögð rík áhersla á skrásetja skuli eins mikið af upplýsingum og mögulegt er um líffæragjafann og líffærið sjálft, en skráningin er á hendi lögbærs yfirvalds sem tilskipunin kveður á um að tilnefna eigi hjá hverju aðildarríki.

Frumvarpið gerir ráð fyrir því að embætti landlæknis taki að sér hlutverk lögbærs yfirvalds og skrásetji upplýsingar um líffæri og líffæragjafa, enda er embættið umsjónaraðili með líffæragjöfum og líffæraígræðslum hér á landi.

Þá er í frumvarpinu tekið fram að við skráningu slíkra upplýsinga skuli gæta þess að fullnægt sé ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir tveimur efnisbreytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu. Annars vegar er um að ræða heimild til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar í íslenskan rétt. Hins vegar er um að ræða heimild til að kveða nánar á í reglugerð um gæða- og öryggisviðmið við veitingu heilbrigðisþjónustu á öðrum sviðum, eins og t.d. um meðferð og varðveislu á frumum og söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs.

Um þessi atriði er fjallað í tveimur reglugerðum, nr. 441/2006 og nr. 1288/2008, sem eru tilkomnar vegna innleiðingar á EES-gerðum og eiga sér stoð í þeim lögum sem frumvarpinu er ætlað að breyta. Því þykir rétt að kveðið sé á um heimild til að innleiða allar framangreindar gerðir með reglugerð í einu reglugerðarákvæði laga um heilbrigðisþjónustu og skjóta þannig styrkari stoðum undir viðkomandi reglugerðir.

Verði frumvarpið að lögum mun það hafa minni háttar áhrif á þá heilbrigðisþjónustu sem um ræðir. Með setningu reglugerðar með reglum um brottnám líffæra, meðferð þeirra og ígræðslu í sjúklinga væri aðeins verið að festa í sessi þekkt verklag og þau gæða- og öryggisviðmið sem þegar er unnið eftir á Landspítalanum – háskólasjúkrahúsi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins. Leyfi ég mér því að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.