144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

eignarhald Íbúðalánasjóðs á íbúðum á Suðurnesjum.

[15:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum var haldinn fyrr í þessum mánuði og lýsti með samþykktum sínum yfir þungum áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis á Suðurnesjum. Á örfáum árum hafði Íbúðalánasjóður eignast þar æ fleiri fasteignir og í lok ágúst 2014 átti sjóðurinn 831 eign á Suðurnesjum sem eru 40% af heildareignum hans; 40% af íbúðum sjóðsins eru á Suðurnesjum þar sem innan við 7% landsmanna búa. Búast má við að sjóðurinn eignist enn fleiri íbúðir þegar frestun á nauðungarsölu verður aflétt. Í ályktun aðalfundar segir, með leyfi forseta:

„Þetta er slæm þróun fyrir samfélagið á Suðurnesjum og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér bæði fyrir bæjarfélögin og þær fjölmörgu fjölskyldur sem misst hafa heimili sín. Stöðugleiki í búsetu er öllum mikilvægur og óöryggi í húsnæðismálum fylgir mikil streita.“

Sveitarstjórnarmenn óttast að verði ekki gripið í taumana muni hin neikvæðu áhrif á samfélagið aukast enn frekar og skapa meiri vanda en fyrir er á svæðinu nú þegar. Þau benda einnig á að þar sem atvinnuleysi sé enn mikið á svæðinu í samanburði við aðra landshluta megi búast við því að ákvæði um styttingu hámarksbótatíma atvinnuleysisbóta leggist þungt á sveitarfélögin á Suðurnesjum.

Ég vil spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hvort hæstv. ráðherra sé meðvituð um þessa alvarlegu stöðu og hvort lausnir séu í sjónmáli á þessum vanda og hvort hæstv. ráðherra sé í samstarfi við sveitarstjórnir á Suðurnesjum um framtíðarlausn um þróun húsnæðismála á svæðinu.