144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

loftslagsmál.

[15:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Um helgina var ganga í Reykjavík fyrir verndun loftslags jarðar sem var hluti af stórum viðburði um allan heim. Eins og fram kemur í bréfi fyrir hönd loftslagshóps til hæstv. umhverfisráðherra og forsætisráðherra í dag er gerð sú krafa að þjóðarleiðtogar taki frumkvæði og sýni ábyrgð á leiðtogafundinum í þessari viku til þess að tryggja viðunandi árangur á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París á næsta ári.

Í bréfinu frá loftslagshópnum er sérstaklega talað um tvo þætti sem varða með afdrifaríkum hætti hagsmuni Íslands. Í fyrsta lagi er súrnun sjávar þar sem síaukin losun koltvísýrings út í andrúmsloftið hefur mjög mikil áhrif á sýrustig sjávar og afleiðingar súrnunar ógna framtíð Íslendinga ekki síður en hækkun yfirborðs ógnar lífsgrundvelli láglendra eyja í Kyrrahafi og Karíbahafi og víðar. Þar erum við í raun og veru að tala um lífsafkomu þjóðar. Hinn stóri punkturinn varðar olíuvinnslu þegar afar tvísýnt er hvort mannkyninu takist að ná settu marki, þ.e. halda breytingum á hitastigi andrúmslofts til langrar framtíðar innan við 2°.

Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra af þessu tilefni:

Hver verða skilaboð Íslands á fundinum sem er yfirstandandi núna?

Í hverju felst undirbúningur Íslands fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í París í lok næsta árs?

Hver verður rödd Íslands í ljósi þeirra ríku hagsmuna sem við þurfum að gæta og (Forseti hringir.) ekki síður þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við erum hluti af?