144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

loftslagsmál.

[15:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Það er rétt að geta þess að í stóra samhenginu er öll losun á Íslandi, stóriðja, samgöngur, landbúnaður, sjávarútvegur, iðnaður og heimili, um það bil innan við helmingur af einu meðalkolaorkuveri í Þýskalandi svo að við gerum okkur grein fyrir stóru myndinni. Við erum sannarlega að gera margt gott.

Ég tel að við séum núna t.d. í fjárlagafrumvarpinu að styrkja stöðu Hafrannsóknastofnunar til þess að hún geti sinnt rannsóknum betur. Við höfum gríðarleg tækifæri í að minnka losun í samgöngum. Við eigum jú mikið rafmagn. Tæknifyrirtæki hér á landi eru líka að taka á losun gróðurhúsalofttegunda og breyta þeim í eldsneyti eins og Carbon Recycling International á Suðurnesjum þar sem er verið að breyta koltvísýringi í metanól sem á að nýtast sem orka. Það hafa verið rannsóknir er varðar frekari repjurækt í sjávarútvegi. Þannig að ég tel að við séum um margt á góðri leið. (Forseti hringir.)

Varðandi olíuvinnsluna er það mál í ákveðnum farvegi sem hefur verið nokkur sátt um í þinginu meðal ólíkra flokka.