144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningsstyrkur til starfsmanna Fiskistofu.

[15:28]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í framhaldi af þessari umræðu um 3 millj. kr. flutningsstyrk til þeirra sem mundu vilja flytja með Fiskistofu norður á Akureyri vil ég vekja athygli á því að ég var að hlusta á þáttinn Vikulokin á laugardaginn þar sem formaður fjárlaganefndar tjáði sig um þessi áform og fordæmdi þau, taldi þetta forkastanleg vinnubrögð. Ég gat ekki séð í fjárlagafrumvarpinu að gert væri ráð fyrir þessum flutningsstyrk og ég velti þar af leiðandi fyrir mér: Hvernig verður þetta fyrirheit efnt við þá starfsmenn sem verið er að lokka til Akureyrar með 3 millj. kr. flutningsstyrk, væntanlega til viðbótar við þann styrk sem ráð er gert fyrir í núgildandi lögum að fólk eigi rétt á, eða hvað? Opinberir starfsmenn eiga rétt á ákveðnum flutningsstyrk ef þeir flytjast búferlum vegna starfa sinna út á landsbyggðina eða frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Þarna hlýtur ráðherrann þá að vera með áform sem eru eitthvað umfram það sem nú þegar er gert ráð fyrir í lögum um starfskjör ríkisstarfsmanna. Mér þætti því gott ef ráðherrann vildi aðeins útskýra þetta. Er fjárveiting fyrir þessu og hvernig sér hann fram á að þetta fyrirheit verði efnt nú í ljósi þess að formaður fjárlaganefndar ætlar svo sannarlega ekki, ef marka má hennar eigin orð, að láta þetta eftir ráðherranum?