144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

flutningsstyrkur til starfsmanna Fiskistofu.

[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Á árunum 2007–2011 voru fluttust hundruð starfa frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Á þeim tíma var hv. þingmaður með áhrif hér í ríkisstjórn og það má spyrja: Fannst þingmanninum það skynsamlegt að beita sér fyrir slíkum flutningsstyrk þegar fólk þurfti að flytjast af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins? Mér finnst þetta persónulega skynsamleg leið og það á að sjálfsögðu við í báðar áttir.

Í þessu tilviki er rætt um flutning Fiskistofu, og eins og ég hef farið nokkuð ítarlega yfir í þessum stuttu ræðum er þetta bæði skynsamlegt fyrir ríkissjóð og gott fyrir stofnunina og þetta sýnir sveigjanlega aðkomu okkar gagnvart starfsmönnunum. Það er enginn að tala um að flytja fólk hreppaflutningum, það er enginn að tala um að flytja stofnunina með manni og mús. Áformin eru um að flytja höfuðstöðvar, hluta af starfsemi sem (Forseti hringir.) eftir sem áður verður staðsett á sjö öðrum stöðum og þar af mjög öflug stofnun á höfuðborgarsvæðinu, (Forseti hringir.) útstöð frá höfuðstöðvunum á Akureyri.