144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

starfsemi Aflsins á Norðurlandi.

[15:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða hér við hæstv. félagsmálaráðherra um Aflið, samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Samtökin hafa starfað í 12 ár. Þar fer fram sjálfshjálparstarf, fræðslustarf og forvarnastarf. Þjónustan hjá samtökunum er skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Til Aflsins getur fólk leitað með hvers konar ofbeldisreynslu, kynferðis-, heimilis- eða andlega. Nýlega hófst pararáðgjöf sem hugsuð er sem ráðgjöf við að vinna úr ofbeldisreynslu. Samtökin telja brýna þörf á að auka þá þjónustu sem í boði er og að setja fót kvennaathvarf sem mikil þörf er fyrir. Aflið þarf nauðsynlega að komast í stærra húsnæði og er unnið hörðum höndum að því. Mikill stuðningur og skilningur er hjá samfélaginu við starfsemi Aflsins og er séð fram á aukna þörf fyrir samtökin.

Það mikla góða starf sem fer fram á vegum Aflsins má vissulega kynna sér í ársskýrslu félagsins fyrir árið 2013. Aflið hefur fengið styrki frá ríki, Akureyrarbæ, auk þess sem einstaklingar, samtök, fyrirtæki og önnur sveitarfélög hafa komið að fjármögnuninni í gegnum árin. Sá stuðningur dugar ekki til að standa undir þeirri starfsemi sem fer fram hjá Aflinu þótt þar fari fram mikil sjálfboðavinna og óeigingjarnt starf.

Styrkur velferðarráðuneytisins fyrir árið 2014 var aðeins 1,4 milljónir, en óskað hafði verið eftir styrk upp á rúmar 7 milljónir. Fólk sem vinnur við þetta er að niðurlotum komið.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hún hafi skoðað heildstætt starfsemi Aflsins og hvort hún styðji að starfsemin verði sett á fjárlög svo að skapa megi meira öryggi fyrir þessi brýnu samtök sem vissulega hafa sannað sig í gegnum árin.