144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

starfsemi Aflsins á Norðurlandi.

[15:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir að í Aflinu er unnið gott starf. Mjög mörg frjáls félagasamtök vinna virkilega mikilvægt og gott starf hvað snýr að forvörnum og aðstoð við fórnarlömb ofbeldis. Það er líka rétt sem kom fram að Aflið hefur fengið styrk í gegnum svokallaða verkefnastyrki velferðarráðuneytisins. Við munum auglýsa aftur á næstunni styrki Stjórnarráðsins. Ég vænti þess að Aflið muni sækja aftur um styrk þar. Það lá fyrir hver ákvörðunin ætti að vera varðandi stuðninginn. Það er mikilvægt að menn athugi hvort þeir séu búnir að sækja allt það fjármagn sem þeir eiga inni hjá okkur. Ég er viss um að forráðamenn Aflsins munu gera það.

Ég vildi hins vegar opna aðeins umræðuna víðar en þetta. Ég átti mjög góðan fund með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á föstudaginn til þess að ræða einmitt sérstaklega um áherslur hennar og hvað við gætum gert til að hjálpa henni til þess að innleiða þá verkferla sem hún hefur unnið að varðandi hvernig sé hægt að taka á ofbeldi. Í samtalinu kom fram að það skipti svo miklu máli að nálgast ofbeldi á heimili, ofbeldi í nánum samböndum með aðeins öðrum hætti en við höfum gert hingað til. Við ættum að leggja meiri áherslu á að það sé gerandinn í ofbeldismálum sem fari af heimilinu en ekki fórnarlambið með því að auka samstarf og efla lögreglu og félagsþjónustu, þá sé raunar hægt að hjálpa fólki mun meira. Við þurfum að endurnefna verkefnið Karlar til ábyrgðar því að það er farið að sinna konum líka, en með því er í rauninni hægt að hjálpa gerendum að hætta að beita ofbeldi.

Já, við þurfum að halda áfram að styðja við þau góðu frjálsu félagasamtök sem hafa verið (Forseti hringir.) að vinna að forvörnum gegn ofbeldi. Við þurfum líka að nálgast ofbeldi í nánum samböndum með öðrum hætti en við höfum verið að gera.