144. löggjafarþing — 9. fundur,  22. sept. 2014.

starfsemi Aflsins á Norðurlandi.

[15:41]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fékk Aflið 2,5 milljónir í styrk frá velferðarráðuneytinu. Auðvitað mundum við mjög gjarnan vilja styrkja með mun hærri upphæð öll þau góðu, frjálsu félagasamtök sem leita til okkar en því miður, eins og hv. þingmaður ætti að þekkja ágætlega, hafa slíkir verkefnastyrkir verið skornir verulega niður á undanförnum árum.

Ég vil samt ítreka það sem ég sagði hér áðan. Ég held að það sé mikilvægt að við horfum til þess að frjáls félagasamtök stígi inn þar sem við hjá hinu opinbera, velferðarþjónustan, erum kannski ekki að sinna hlutum nægilega vel.

Ég hef trú á þeirri aðferðafræði sem gafst mjög vel á Suðurnesjum og er nú verið að huga að því að innleiða hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að önnur lögregluembætti hafa verið að afla upplýsinga og kynna sér hvernig það virkaði. Þegar lögð er áhersla á aukið samstarf á milli lögreglunnar og félagsþjónustunnar til að taka á ofbeldi í (Forseti hringir.) nánum samböndum sjáum við meiri árangur en áður. Von mín er náttúrlega sú að koma í veg fyrir að við þurfum á kvennaathvarfi að halda. (Forseti hringir.) Það er það sem skiptir máli. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér hvað það varðar.